Börn í áhættuhópum

132. fundur
Fimmtudaginn 18. mars 1993, kl. 10:57:50 (6152)

     Fyrirspyrjandi (Anna Ólafsdóttir Björnsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svör sem voru skýr að vanda og fagna því að sett hefur verið á laggirnar nefnd með þessu starfssviði sem hún taldi upp. Ég harma það hins vegar að það skuli ekki hafa gerst fyrr. Út af fyrir sig er það gefið hér sem skýring að lögin hafi nýverið tekið gildi, en þó að þau hafi ekki verið samþykkt á Alþingi fyrr en sl. vor, þá hefur engu að síður verið þarna umþóttunartími sem ég tel að hefði verið nauðsynlegt að nýta, en það þýðir ekki að sýta það núna heldur hugsa um hvernig framhaldið verði. Því hlýt ég að spyrja í framhaldi hvort einhver tímaáætlun sé varðandi störf þessarar nefndar. Mér er fullljóst að það þarf að vanda vel til þessa verks, en þrátt fyrir það held ég að það sé óhjákvæmilegt að það gerist einnig eins hratt og unnt er. Því miður munu vera brögð að því að t.d. ákvæði þessarar greinar laganna um skráningu og meðferð upplýsinga um börn í áhættuhópi eru ekki kunn barnaverndarstarfsmönnum og er það að sjálfsögðu miður. Hér er eitthvað ekki eins og það á að vera og því nauðsynlegt að bæta þar um.