Unglingaheimili

132. fundur
Fimmtudaginn 18. mars 1993, kl. 11:03:00 (6155)

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Árið 1972 var sett á laggirnar Unglingaheimili ríkisins en innan vébanda þess eru nú starfræktar fjórar deildir auk opinnar unglingaráðgjafar, göngudeildar að Síðumúla 13 í Reykjavík. Þær fjórar deildir sem um er að ræða eru unglinga- eða meðferðarheimili í þeim skilningi sem fsp. ber með sér. Þessar deildir eru eftirfarandi:
    1. Móttökudeild sem rekin er að Efstasundi 86 í Reykjavík. Móttökudeildin er í reynd tvískipt. Annars vegar er um að ræða rannsóknarvistun en þar eru fjögur rými fyrir unglinga á aldrinum 13--15 ára. Hins vegar er svonefnd bráðavistun en þar eru tvö rými fyrir unglinga á sama aldri. Bráðavistunin er ætluð til að vista unglinga gegn vilja sínum í stuttan tíma, oftast 1--2 sólarhringa á meðan lögregla rannsakar mál þeirra eða barnaverndarnefndir finna varanlega lausnir í málum þeirra.
    2. Meðferðarheimili að Sólheimum 7 í Reykjavík. Á þessu meðferðarheimili er langtímameðferð og þar er að finna rými fyrir sjö unglinga á aldrinum 13--15 ára.
    3. Unglingasambýli að Sólheimum 17 í Reykjavík. Hér er um að ræða svonefnt fjölskylduheimili. Fjölskylda býr á staðnum og eru hjónin leiðandi í meðferðarstarfinu. Um fimm rými er að ræða, en hér er um framhaldsmeðferð að ræða fyrir unglinga sem hafa verið í meðferð á öðrum deildum en eiga ekki afturkvæmt heim.
    4. Tindar. Meðferðarheimili fyrir unga vímuefnaneytendur að Kjalarnesi. Um er að ræða meðferðarheimili fyrir unglinga 13--18 ára. Þeir sem ljúka þar meðferð eiga kost á eftirmeðferð að Síðumúla 13. Tindar eru ætlaðir fyrir 12 unglinga.
    Auk ofangreindra deilda Unglingaheimilis ríkisins eru tvö meðferðarheimili rekin með faglegri umsjón þess, þ.e. meðferðarheimilið á Torfastöðum og vistheimilið að Árbót í Aðaldal. Á vegum Reykjavíkurborgar eru rekin nokkur heimili fyrir börn og unglinga en önnur sveitarfélög reka ekki slíkar stofnanir. Það er vistheimili barna að Hraunbergi 15 í Reykjavík, vistheimili barna að Mánagötu 25, fjölskylduheimilið Ásvallagötu 14 og unglingasambýli að Búðagerði 8.
    Samkvæmt þessu yfirliti eru stofnanir fyrir börn og unglinga í landinu öllu nú 10 talsins og er þá neyðarathvarf Rauða krossins ekki talið með þar sem það getur ekki talist til unglingaheimilis, enda þótt unglingum bjóðist þar gisting.
    Í fsp. er spurt hvort til standi að fjölga slíkum heimilum og dreifa þeim víðar um landið. Í undirbúningi er nú rekstur tveggja slíkra meðferðarheimila. Annars vegar er um að ræða heimili fyrir vegalaus börn sem samtökin Barnaheill söfnuðu fé til á sl. ári. Hins vegar er um að ræða svonefndar lokaðar meðferðardeildir við Unglingaheimili ríkisins. Ljóst er að meðferðarheimili Barnaheilla verður valinn staður úti á landsbyggðinni en á fjárlögum hefur verið veitt til þess 17,3 millj. kr. til reksturs á þessu ári. Unnið hefur verið að undirbúningi þess heimilis í allan vetur en því miður slitnaði upp úr samningaviðræðum við sérfræðinga sem höfðu lýst áhuga á að taka að sér rekstur þessa heimilis. Verður því enn töf á því að starfsemi þess geti hafist en ákveðið er þó að væntanlegt heimili taki til starfa ekki seinna en næsta sumar.
    Eins og komið hefur fram er í undirbúningi að reka lokaða meðferðardeild fyrir unglinga sem nauðsynlegt er að veita hjálp, en ríkisstjórnin hefur veitt 20 millj. kr. til reksturs þessarar deildar í tilraunaskyni út þetta ár. Með þeirri ákvörðun var verið að bregðast við bráðaástandi svo sem flestum er kunnugt um. Stjórn Unglingaheimilis ríkisins hefur verið falinn undirbúningur málsins og er gert ráð fyrir að starfsemin verði úti á landi.
    Ljóst er að þörf er á fleiri meðferðarheimilum en nú eru rekin og áformað er að reka á næstunni. Einkum er þörf fyrir skammtímameðferðarheimili fyrir barnaverndarnefndir utan Reykjavíkur sem ekki hafa aðgang að neinni skammtímavistun þegar um bráðatilvik er að ræða. Skapar þetta oft mjög mikinn vanda í barnaverndarstarfi. Úr þessu þarf að bæta og gera áætlanir um rekstur fleiri úrræða en hér hefur verið gerð grein fyrir.