Tilsjónarmenn og stuðningsfjölskyldur

132. fundur
Fimmtudaginn 18. mars 1993, kl. 11:16:04 (6160)

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Fsp. er tvíþætt. Annars vegar er spurt um ráðningu stuðningsfjölskyldna sbr. 21. gr. laga um málefni fatlaðra og hins vegar um ráðningu tilsjónarmanna, persónulegra ráðgjafa og stuðningsfjölskyldna. Varðandi ráðningu stuðningsfjölskyldna hafa svæðisskrifstofur málefna fatlaðra milligöngu um að finna stuðningsfjölskyldur og annast samningsgerð við þær um tilhögun dvalar og greiðslu. Í samningi við stuðningsfjölskyldur er kveðið á um ákveðinn fjölda dvalarsólarhringa í mánuði og eru greiðslur til þeirra sólarhringsgjald. Greiðsla tímakaups eins og fyrirspyrjandi spyr um þekkist því ekki. Sólarhringsgjaldið er 5,5% af launaflokki 227, 1. þrepi í kjarasamningi BSRB og er í dag 2.434 kr.
    Varðandi 3. lið fsp. um það hversu margar stundir þjónustan er veitt í mánuði er það að segja að í reglugerð 345/1985, um stuðningsfjölskyldur fatlaðra, er kveðið á um að hámark samfelldrar dvalar skuli vera þrír sólarhringar í mánuði en heimilt sé að víkja frá því, enda fari dvöl ekki fram yfir 15 sólarhringa á þriggja mánaða tímabili. Í samningnum við stuðningsfjölskyldur er þannig samið um vistun frá tveim sólarhringum til fimm sólarhringa í mánuði. Í dag eru samningar við stuðningsfjölskyldur alls 120. Af þeim hljóða sex samningar um vistun í tvo sólarhringa í mánuði, 68 samningar um vistun í þrjá sólarhringa í mánuði, 8 samningar um vistun í fjóra sólarhringa í mánuði og 38 samningar um vistun í fimm sólarhringa í mánuði.
    Í 4. lið fsp. er spurt um skattlagningu á greiðslum til stuðningsfjölskyldna. Því er til að svara að greiðslur til stuðningsfjölskyldna teljast að fullu til skattskyldra tekna hjá mótttakanda. Heimilt er að færa til frádráttar þessum tekjum beinan kostnað vegna umönnunar dvalar barnanna, séu lagðar fram fullnægjandi upplýsingar um útlagðan kostnað. Liggi hins vegar ekki fyrir tölulegar upplýsingar um kostnað er heimilt að færa til frádráttar fjárhæð sem samsvarar til tvöfalds barnalífeyris sem greiddur er af almannatryggingum. Mánaðarleg fjárhæð tvöfalds barnalífeyris reiknast hlutfallslega miðað við þann dagafjölda sem greiðslurnar eru inntar af hendi fyrir.
    Í 5. lið fsp. er spurt um hvort sett hafi verið reglugerð um nánari framkvæmd lagaákvæðis um stuðningsfjölskyldur. Í ráðuneytinu er nú unnið að samningu reglugerðar um lögin um málefni fatlaðra. Lögin gera m.a. ráð fyrir að sett verði reglugerð um þjónustu stuðningsfjölskyldna fatlaðra. Þar til sú reglugerð lítur dagsins ljós er stuðst við reglugerð

345/1985, um stuðningsfjölskyldur vegna fatlaðra, við framkvæmd lagaákvæðis.
    Spurt er um stuðningsfjölskyldur í barnavernd. Barnaverndarnefndir í stærri sveitarfélögum hafa um árabil skipað heimilum tilsjónarmenn. Þetta var gert með stoð í 26. gr. laga frá 1966, þar sem kveðið var á um að skipa mætti heimili eftirlitsmann þegar uppeldi og umönnun barna væri ábótavant. Í reglugerð með gömlu barnaverndarlögunum er nánar kveðið á um hlutverk eftirlitsmanna en þar segir:
    ,,Hlutverk eftirlitsmanna er að veita skjólstæðingum sínum þá leiðsögn og þann stuðning er þeir mega. Tilgangi eftirlits verður því aðeins náð að milli eftirlitsmanns og skjólstæðings, heimilisföður eða ungmennis myndist gagnkvæm vinátta og traust.``
    Í nýjum lögum um vernd barna og ungmenna þar sem fjallað er um stuðningsúrræði í samvinnu við foreldra og barn er m.a. kveðið á um að útvega megi barni eða fjölskyldu tilsjónarmann, ráðgjafa eða stuðningsfjölskyldu. Skal félmrn. setja reglugerð um það úrræði og verður hún sett á næstunni. Fram til þessa hefur framkvæmd þessarar þjónustu verið nokkuð mismunandi hjá sveitarfélögum, en ég vænti þess að með nýrri reglugerð verði hún samræmd yfir allt landið.
    Ég hef aflað mér upplýsinga hjá Félagsmálastofnun Reykjavíkur um það hvernig ráðningu stuðningsfjölskyldna og tilsjónarmanna er þar háttað. Við ráðningu tilsjónarmanna er hæfni þeirra og hugsanleg sérþekking metin. Ef um er að ræða geðfötluð börn er samráð haft við hlutaðeigandi meðferðarstofnun.
    Félagsmálastofnun Reykjavíkur hefur haldið námskeið fyrir verðandi tilsjónarmenn auk þess sem tilsjónarmenn funda mánaðarlega og fá reglubundna ráðgjöf frá félagsráðgjöfum eða öðrum sérfræðingum. Þegar stuðningsfjölskyldur eru ráðnar er farið á heimilin og aðstæður þar allar metnar. Einstaklingar koma í viðtal og hæfni þeirra er metin. Farið er fram á sakavottorð fyrir fullorðna heimilismenn, læknisvottorð og umsjón barnaverndarnefndar og stuðningsfjölskyldur fá ráðgjöf hjá félagsráðgjöfum. Tímakaup tilsjónarmanna er samkvæmt kjarasamningi Starfsmannafélags Reykjavíkur. Ef um er að ræða ómenntaða, þá er það launaflokkur 232 sem er 366 kr. á tímann í dagvinnu. Ef um er að ræða kennara, þá er það launaflokkur 236 sem er 408 kr. á tímann og ef um er að ræða félagsráðgjafa eða sálfræðinga, þá er það launaflokkur 239 sem er 443 kr. á tímann í dagvinnu.
    Stuðningsfjölskyldur fá greitt 2.400 á sólarhring samkvæmt ákvörðun Félagsmálaráðs Reykjavíkur. Ef börn er með miklar sérþarfir er greiðslan hækkuð og er það metið í hverju einstöku tilviki.