Tilsjónarmenn og stuðningsfjölskyldur

132. fundur
Fimmtudaginn 18. mars 1993, kl. 11:25:11 (6163)

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með þeim sem hér hafa talað um mikilvægi þess að hafa þetta úrræði sem stuðningsfjölskyldur er og ég vil einnig taka það fram að ég tel að það sé algjörlega óviðunandi miðað við hvað hér er um lágar greiðslur að ræða að þær skuli vera skattskyldar. Við höfum í þrígang í félmrn. á sl. ári skrifað til ríkisskattstjóra út af þessu og varað við því að þetta yrði gert með þessum hætti, en áður voru þessar greiðslur einungis framtalsskyldar en ekki skattskyldar. Ég óttast það að ef ekki verður breyting á geti verulega dregið úr þessum mikilvæga stuðningi sem stuðningsfjölskyldur eru. Hér er líka mikið ósamræmi á ferðinni vegna þess að t.d. dagmæður, sem kannski má segja að sé hliðstætt, fá 50--60% viðurkennt sem frádráttarlið meðan einungis er hér um að ræða 20% af kostnaði sem viðurkenndur er sem frádráttarliður hjá stuðningsfjölskyldum, þannig að hér er mjög mikið ósamræmi á ferðinni. En það hefur ekki borið árangur að félmrn. hafi í þrígang skrifað til ríkisskattstjóra varðandi þetta mál og hef ég því óskað eftir og skrifað til fjmrh. um það að haldinn verði fundur um þetta mál og þá í samráði við skattyfirvöld vegna þess að það er óviðunandi að búa við það að af svona lágum greiðslum skuli þurfa að greiða skatt. Ég ítreka það að ég óttast að verði ekki breyting á þá dragi úr þessari mikilvægu þjónustu sem er kannski eitt af þeim ódýrustu úrræðum sem við höfum í aðstoð við fatlaða.