Ráðstafanir vegna afnáms aðstöðugjalds

132. fundur
Fimmtudaginn 18. mars 1993, kl. 11:29:21 (6166)

     Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) :
    Virðulegi forseti. Nú fyrir áramótin var stigið það merkilega og nauðsynlega skref að afnema aðstöðugjald af fyrirtækjum. Löngum hefur þessi skattur verið til mikillar óþurftar og því orðið tímabært fyrir löngu að hann hyrfi að fullu og öllu. Í raun skapaðist býsna góður pólitískur friður um afnám aðstöðugjaldsins á Alþingi. Á það var líka litið að afnám þess nú væri liður í þeim ásetningi stjórnvalda að treysta stöðu atvinnulífsins og skapa þannig svigrúm til aukinnar atvinnu í landinu.
    Afnám aðstöðugjaldsins er varanleg aðgerð en núverandi tekjuöflun sem sveitarfélögin fá í staðinn er eingöngu hugsuð til eins árs, en á þessu ári verður unnið að nýjum tillögum um hvernig megi skipa þeim málum til frambúðar eins og kunnugt er. Það er gert ráð fyrir því að í stað aðstöðugjalds gjaldársins 1993 skuli sveitarfélögin fá sérstakt framlag úr ríkissjóði eins og orðrétt segir í texta laganna, með leyfi forseta:
    ,,Framlag ríkissjóðs skal vera fjárhæð sem svarar til 80% af álögðu aðstöðugjaldi gjaldárið 1993 sem hefði fallið til hvers sveitarfélags ef ekki hefði komið til niðurfelling gjaldsins.``
    Í máli frsm. minni hluta félmn., hv. 5. þm. Vestf., kom fram 21. des. sl. að minni hlutinn gerði ekki athugasemd við þetta hlutfall af álögðu aðstöðugjaldi sem sveitarfélögin skuli fá greitt.
    Þá var enn fremur gert ráð fyrir því í lögunum að sérstakt 120 millj. kr. framlag skyldi renna til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og varið til jöfnunarframlaga, sbr. 14. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga. Við 1. umr. málsins á Alþingi 7. des. sl. kom fram að um þetta mál væri fullt samkomulag við Samband ísl. sveitarfélaga. Þó er ekki að fullu ljóst með hvaða hætti þessar greiðslur mundu skila sér til sveitarfélaganna, en hæstv. félmrh. tiltók sérstaklega að þeim málum yrði ráðið með samkomulagi við Samband ísl. sveitarfélaga. Markmið okkar sem stóðum að afnámi aðstöðugjaldsins núna var einfaldlega á þessu ári að afnema hinn óréttláta skatt, en tryggja jafnframt einstökum sveitarfélögum greiðslur í staðinn svo að þau stæðu hvert og eitt, en ekki bara að meðaltali, jafnrétt á eftir.
    Nú er það auðvitað ljóst að ýmis sveitarfélög hafa betra innheimtuhlutfall en 80% miðað við innheimtu sem hlutfall af álagningu aðstöðugjalds á sama ári. Meðaltalsútreikningur er því lítil sárabót fyrir þau sveitarfélög. Þess vegna gefur það auga leið að til þess að hlutur þeirra sé ekki fyrir borð borinn þarf að ganga þannig frá málum, e.t.v. með reglugerðarbreytingu, að það sé tryggt að þær 120 millj., sem Alþingi varði sérstaklega í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga núna í ár, skili sér til þessara sveitarfélaga sem eiga í hlut. Því hef ég leyft mér á þskj. 719 að leggja fyrir hæstv. félmrh. eftirtaldar tvær spurningar:
  ,,1. Hvaða sveitarfélög í landinu innheimtu meira en 80% af álögðum aðstöðugjöldum árið 1992?
    2. Með hvaða hætti verður komið til móts við þessi sveitarfélög nú í ár vegna afnáms aðstöðugjalds?``