Ráðstafanir vegna afnáms aðstöðugjalds

132. fundur
Fimmtudaginn 18. mars 1993, kl. 11:45:11 (6173)

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég vil taka það fram vegna þeirra orða sem hér hafa fallið að sú bráðabirgðaráðstöfun um aðstöðugjaldið, sem er á þessu ári, var gerð í fullu samráði við Samband ísl. sveitarfélaga. Af því að hér er notað orðið flumbrugangur er vissulega ástæða til þess að nefna það. Fyrir lágu ýmsar tillögur um hvað ætti að taka við af aðstöðugjaldinu en um það náðist ekki samkomulag m.a. hjá sveitarstjórnarmönnum sjálfum hvað ætti að koma í staðinn, en núna er nefnd starfandi sem er að vinna að því máli.
    Varðandi umræddar 120 millj. sem hér hafa verið nefndar þá tel ég að það sé mjög skýrt í lögunum sjálfum hvernig á að verja þeim vegna þess að talað er um eins og hér er orðað að þeim skuli verja til greiðslu jöfnunarframlaga skv. 14. gr. og ef 14. gr. er lesin, þá er þar um að ræða tvo liði, þ.e. þjónustuframlög og tekjujöfnunarframlög. Ég held því að lögin séu mjög skýr í þessu þó að vera kunni að það hafi verið einhver misskilningur uppi um ráðstöfun á þessu hjá einstaka þingmönnum. Orðalagið á þessari grein varðandi ráðstöfun á þessu fjármagni var unnið í fullu samráði við Samband ísl. sveitarfélaga. Ég hef ekki orðið vör við annað en að sá skilningur sem ég hef sett hér fram varðandi ráðstöfun á þessu fjármagni sé sá sami og stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga hefur lagt í þetta mál. Ég vil ítreka að ef það eru einhverjar breytingar uppi af hálfu Sambands ísl. sveitarfélaga varðandi ráðstöfun á þessu og ef það hefur einhverjar nýjar tillögur fram að færa um ráðstöfun á þessu fjármagni er auðvitað sjálfsagt að skoða það.