Endurskoðun laga um vinnumiðlun

132. fundur
Fimmtudaginn 18. mars 1993, kl. 11:50:44 (6175)

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég hef skipað nefnd til þess að endurskoða lög nr. 18/1985, um vinnumiðlun, með aðild Sambands ísl. sveitarfélaga, ASÍ, VSÍ og ráðgjafarnefndar vinnumálaskrifstofu félmrn. Hlutverk nefndarinnar er að endurskoða markmið og skipulag vinnumiðlunar í landinu, verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, starfsemi vinnumiðlunar, hlutverk og þjónustu vinnumiðlana, samstarf vinnumiðlana á hverju atvinnusvæði og milli atvinnusvæða, hlutverk, þjónustu og skyldur annarra vinnumiðlana og önnur þau ákvæði sem nefndin telur þörf á að endurskoða.
    Markmiðið með endurskoðuninni er:
    að koma upp samræmdu heildarskipulagi vinnumiðlunar í landinu,
    að vinnumiðlanir verði ávallt í stakk búnar til að taka á þeim framboðs- og eftirspurnavanda sem iðulega kemur upp á vinnumarkaðinn,
    að taka af allan vafa um hvar beri að starfrækja raunverulega vinnumiðlun, hvar atvinnuleysisskráning fer fram og hvert atvinnuveitendur og atvinnurekendur eiga að bera sig eftir tiltekinni þjónustu,
    að hlutverk vinnumiðlana og þjónustuskylda sé vel skilgreind þannig að ekki sé nokkur vafi á því hvað þær eigi að gera og hvað þær geta gert,

    að öll upplýsingamiðlun í vinnumiðlunarkerfinu sé vel skilgreind þannig að ekki sé nokkur vafi á því hverjum beri að senda eða kalla eftir upplýsingum, greinargerðum og tillögum og þess háttar,
    að leggja mat á hvort þau þjónustuúrræði, sem starfrækt eru hjá vinnumiðlunum erlendis, henta við íslenskar aðstæður,
    að leggja mat á hvort tímabært sé að kveða á um sérstaka þjónustu fyrir þá sem hafa verið atvinnulausir um lengri tíma og
    að athuga tengsl laga um vinnumiðlun við aðra löggjöf sem snertir vinnumiðlun, svo sem lög um félagsþjónustu sveitarfélaga, lög um málefni fatlaðra og lög um atvinnuleysisskráningar.
    Gildandi lög um vinnumiðlun gera hverju sveitarfélagi með 500 íbúa eða fleiri skylt að annast vinnumiðlun en hins vegar skulu öll sveitarfélög óháð íbúafjölda annast atvinnuleysisskráningu. Sérstakar vinnumiðlanaskrifstofur skulu starfræktar þar sem búa fleiri en 10.000 íbúar en þar er um að ræða fjögur sveitarfélög. Sá sem er í atvinnuleit á að geta snúið sér til vinnumiðlunar í því sveitarfélagi þar sem hann á lögheimili og óskað eftir upplýsingum um laus störf og jafnframt óskað eftir aðstoð vinnumiðlunar við að finna starf við sitt hæfi. Engin skylda hvílir hins vegar á atvinnurekendum að tilkynna laus störf til vinnumiðlunar. Reynslan er því sú að vinnumiðlanir sveitarfélaga skrá atvinnuleysi en miðla aðeins í takmörkuðum mæli lausum störfum.
    Nefndinni sem ég hef skipað til að endurskoða lögin er einkum ætlað að huga að því hvernig vinnumiðlunin getur orðið virkari og nauðsynlegt er að efla samstarf við aðila vinnumarkaðarins á þessu sviði. Lögin um vinnumiðlun gera ráð fyrir því að unnt sé að starfrækja vinnumiðlun á vegum fyrirtækja og einstaklinga svo framarlega sem það er gert á kostnað atvinnurekenda. Á meðan atvinnuleysi var nánast óþekkt hér á landi voru atvinnurekendur tilbúnir að greiða fyrir útvegun starfsfólks. Væntanlega hefur það breyst nokkuð og má búast við að atvinnurekendur leiti í auknum mæli til opinberra vinnumiðlana þar sem þjónusta er veitt endurgjaldslaust. Hins vegar er ljóst að vinnumiðlanir verða að veita fullnægjandi þjónustu ef þær eiga að gera sér vonir um að atvinnurekndur leiti eftir þjónustu þeirra við atvinnuráðningar. Þá hlýtur að verða að skilgreina nánar hvaða þjónustu vinnumiðlanir eiga að veita atvinnulausum, ekki síst þeim sem búa við langvarandi atvinnuleysi.
    Félmrn. hefur undanfarið í samstarfi við ýmsa aðila einnig undirbúið að taka í notkun nýjan gagnagrunn til tölfræðilegrar úrvinnslu úr gögnum atvinnuleysisskráningar. Þessi gagnagrunnur verður einnig nýttur til vinnumiðlunar milli sveitarfélaga og hugsanlega verður hluti þessa gagnagrunns tengdur vinnumiðlunarkerfi sem þjóna á öllu Evrópska efnahagssvæðinu. Í tengslum við þetta verkefni hefur jafnframt verið unnið að því að uppfæra atvinnuleysisskráningar og vinnumiðlunarkerfi fyrir vinnumiðlanir í nútímalegra horf.
    Enn fremur er í undirbúningi að bótaútreikningar tengjast þessu tölvukerfi. Þessar breytingar gera kleift að tengja saman alla atvinnuleysisskráningu og vinnumiðlun í landinu með fljótvirkum hætti. Breytingarnar fela enn fremur í sér að hægt verður að fá miklu nákvæmari upplýsingar um atvinnuleysið þannig að auðveldara verður að meta hvar þörfin fyrir vinnumarkaðsaðgerðir eru brýnastar hverju sinni. Þegar hefur verið haldinn fundur með starfsmönnum vinnumiðlana til að fjalla um fyrirhugaðar breytingar og fulltrúar þeirra tekið þátt í að undirbúa þessa gagnavinnslu.
    Þess má að lokum geta að núgildandi lög um vinnumiðlun gera ráð fyrir að unnt sé að taka upp véltæka gagnavinnslu að höfðu samráði við hlutaðeigandi aðila. Leitað var til Sambands ísl. sveitarfélaga og óskað eftir áliti stjórnar sambandsins á því hvort ekki sé tímabært að beita þessu ákvæði. Stjórn sambandsins hefur lýst sig samþykka þessu. Það er því ósk félmrn. að allar vinnumiðlanir undirbúi sig undir að taka upp tölvustýrða atvinnuleysisskráningu og vinnumiðlun á þessu ári.