Endurskoðun laga um vinnumiðlun

132. fundur
Fimmtudaginn 18. mars 1993, kl. 11:55:28 (6176)

     Fyrirspyrjandi (Össur Skarphéðinsson) :
    Virðulegi forseti. Ég er nokkuð tekinn að reskjast og einbeitingu minni að verða

áfátt þannig að ég náði ekki öllu því mikla efni sem kom fram í hröðu máli hæstv. félmrh. En þó verð ég að lýsa því yfir að það sem ég þó náði vakti gleði mína. Ég tók líka eftir því að hæstv. félmrh. er afskaplega bjartsýn kona. Hún talaði um það að hlutverk hinnar nýju vinnumiðlunar yrði að ráða bót á þeim framboðs- og eftirspurnarvanda sem væri á vinnumarkaðinum. Því miður er það svo að hvað vinnuafl áhrærir þá er einungis um framboðsvanda að ræða, því miður, og ekkert bendir til þess að mikil breyting verði á því.
    Ég hjó enn fremur eftir því, virðulegi forseti, að hæstv. félmrh. hyggst beita sér fyrir því að það verði nokkurt nýmæli í starfsemi vinnumiðlana í framtíðinni, þ.e. hún vill láta leggja mat á það hvort það eigi af hálfu vinnumiðlana að koma til einhvers konar þjónustu við atvinnulaust fólk --- fólk sem hefur verið lengi atvinnulaust. Ég tel að það sé mjög þarft og fagna þessari yfirlýsingu hæstv. ráðherra.
    Ég tók enn fremur eftir því, virðulegi forseti, að ráðherrann orðaði það svo að það væri engin skylda á fyrirtækjum í landinu til þess að gefa upplýsingar um laus störf. Eigi að síður er það svo að í 14. gr. núgildandi laga, sem voru sett 1985, er talað um það að ráðherra geti með reglugerð ákveðið að öllum sem hafa atvinnurekstur með aðkeyptu vinnuafli sem hafa fjóra eða fleiri starfsmenn í þjónustu sinni, verði gert skylt að tilkynna hlutaðeigandi vinnumiðlunum um laus störf. Ef einhver dráttur verður á því að frv. að nýjum lögum verði lagt fyrir þingð þá tel ég að ráðherrann eigi að hlutast til um það að nýta þessa heimild, setja reglugerð sem gerir fyrirtækjum það skylt.
    Að lokum, virðulegi forseti, fannst mér gæta í máli hæstv. félmrh. sama áhersluleysis á hlutverk einkarekinna vinnumiðlana og er enn að finna í þessum lögum. Ég beini því til ráðherrans að hann komi sínum ágætu starfsmönnum í skilning um það að mjög mikilvægt sé að taka sérstaklega vel á hlutverki hinna einkareknu vinnumiðlana vegna þess að það er allt svo laust í reipunum með það.