Fasteignamat ríkisins

132. fundur
Fimmtudaginn 18. mars 1993, kl. 11:58:15 (6177)

     Fyrirspyrjandi (Jóna Valgerður Kristjánsdóttir) :
    Herra forseti. Ég er með fsp. til hæstv. fjmrh.
  ,,1. Hefur Fasteignamati ríkisins verið skipuð sérstök stjórn þar sem sveitarfélög eigi fulltrúa?
    2. Má vænta þess að starfsemi stofnunarinnar verði færð í meira mæli af höfuðborgarsvæðinu og út á land og þar með nær þeim sem hún þjónar?``
    Til nánari skýringar vil ég taka fram að í frv. til fjárlaga fyrir árið 1993 er því lýst í greinargerð að Fasteignamat ríkisins sé nú sett í B-hluta fjárlaga og stofnuninni verði sett stjórn sem skipuð verði fulltrúum sveitarfélaga og ríkisins. Um það verði flutt frv. á haustþingi en mér vitanlega er það ekki enn komið inn í þingið.
    Ef það frv. yrði samþykkt og sveitarfélögin fengju meira um það að segja hvernig stofnunin vinnur má ætla að starfsemi stofnunarinnar verði færð í meira mæli út um landið og þar með nær þeim sem hún þjónar. Ég minni á að t.d. hafa bæði Fjórðungssamband Vestfirðinga og sveitarstjórnir þar ítrekað lýst vilja sínum til þess að fá þjónustu Fasteignamatsins færða inn í fjórðunginn og hafa þau sameinast um að leggja til að það yrði staðsett á Hólmavík.
    Í dag eru 34 starfsmenn á skrifstofunni í Reykjavík, einn starfsmaður í Borgarnesi, einn á Egilsstöðum, tveir á Selfossi og þrír á Akureyri. Nú er starfsmaður í Reykjavík sem þjónar Vestfjörðum, en hann var áður í Borgarnesi og þegar sú starfsemi óx svo að hann hafði nóg að gera með að vinna fyrir Vesturlandsumdæmi þá voru verkefni sem tilheyrðu Vestfjörðum færð til Reykjavíkur. Þrátt fyrir ítrekuð tilmæli og bréfaskriftir frá Vestfirðingum hefur ekkert gerst í málinu. Það má raunar segja að það sé með eindæmum hvernig opinber stofnun leyfir sér að svara bréfum og ætla ég að taka hér nokkur dæmi um það.
    Á fjórðungsþingi 1991 var samþykkt að óska eftir því að starf við mat fasteigna á Vestfjörðum væri flutt til Vestfjarða en ekki til Reykjavíkur frá Borgarnesi eins og þá var ráðgert. Síðar óskaði hreppsnefnd Hólmavíkur eftir því að starfsemin yrði flutt þangað og bauð fram aðstoð við húsnæði og starfsaðstöðu. Fjórðungssambandið studdi þá tillögu og óskaði eftir liðsinni þingmanna við það og var það gert með bréfi þingmanna til Fasteignamats ríkisins. Þetta var síðan ítrekað í bréfi 20. febr. 1992 frá Fjórðungssambandinu til Fasteignamatsins. Svar barst síðan frá stofnuninni 20. febr. 1992 eða fyrir ári og þar segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Svo sem áður hefur verið rakið var sú ákvörðun að gera Vestfirði að sérstöku matsumdæmi tekin til þess að bæta þjónustu við Vestfirði. Þá var það og haft í huga að sérstök umdæmisskrifstofa yrði staðsett á Vestfjörðum til að skilyrði sköpuðust.`` Svo segir: ,,Frá stofnun Fasteignamats ríkisins 1976 hefur það verið stefna stofnunarinnar að staðsetja umdæmisskrifstofunar í þjónustumiðstöðvum þeirra byggða er þær þjóna.`` En svo kemur í restina: ,,Það eru engin rök sem mæla með því að drita þjónustustofnunum hins opinbera um allar trissur í byggðarlögunum. Það stuðlar einungis að því að þær veiti lakari þjónustu en ella og menntaðir og hæfir menn fáist ekki til starfa.``
    Þetta finnst mér alveg furðulegt svar frá einni stofnun og ég beini því þessum spurningum sem ég bar fram til hæstv. fjmrh.