Fasteignamat ríkisins

132. fundur
Fimmtudaginn 18. mars 1993, kl. 12:04:58 (6179)

     Einar K. Guðfinnsson :
    Virðulegi forseti. Um leið og ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að leggja fram þessa fsp. verð ég að segja að það er mikið fagnaðarefni að verið er að vinna að endurskoðun á starfsemi Fasteignamats ríkisins og koma í veg fyrir það sem nú á sér stað að verið er að margvinna sömu hluti sem varða fasteignatengdar upplýsingar, bæði hjá Fasteignamatinu, hjá sveitarfélögum, hjá tryggingafélögum og bönkum svo að ég taki sem dæmi. Ég tel að það sé stórmál og mjög mikilvægt einmitt fyrir starfsemina hvað varðar fólkið úti á

landi að dregið sé úr umfangi starfsemi Fasteignamats ríkisins hér í Reykjavík og ekki síst vegna þess, sem kom fram í máli hv. fyrirspyrjanda, þess dæmalausa embættishroka sem fram hefur komið í afstöðu þessarar stofnunar til fólks á landsbyggðinni og kom alveg sérstaklega fram í upplesnum tilvitnunum sem hv. 6. þm. Vestf. las hér upp. Það er auðvitað gersamlega óþolandi að finna og heyra og sjá afstöðu valdamikils embættismanns í stofnun af þessu tagi til fólksins á landsbyggðinni sem lýsir sér með þessu fráleita og afkáralega orðalagi að tala um að ,,drita stofnunum út um allar trissur`` þegar verið er að tala um að færa einn starfsmann til starfa hjá því fólki sem hann á að sinna.