Fasteignamat ríkisins

132. fundur
Fimmtudaginn 18. mars 1993, kl. 12:06:18 (6180)

     Fyrirspyrjandi (Jóna Valgerður Kristjánsdóttir) :
    Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og er ánægð með að heyra það að hér skuli eiga að leggja fram það frv. sem e.t.v. tekur á því að sveitarfélögin hafi þá a.m.k. meira um það að segja hvernig þessi stofnun starfar. En af því að hann tók það sem endinn á því bréfi, sem ég las hér upp frá Fasteignamati ríkisins, þá vil ég leiðrétta það, það er ekki endirinn á bréfinu heldur svona um það bil miðja. Síðan er rakið að óskir Fjórðungssambandsins um að staðsetja skrifstofu Fasteignamatsins á Hólmavík hljóti að stafa af ókunnugleika á starfinu og að bein þjónusta sé vaxandi í starfi stofnunarinnar og það hljóti því að verða frekar að staðsetja skrifstofuna á Ísafirði þar sem séu flestar þinglýstar eignir sem Fasteignamatið fjallar um. Rökin fyrir því að vera ekki á Hólmavík eru þó eins og hér segir, með leyfi forseta:
    ,,Fyrir utan þau almennu rök sem áður eru rakin fær undirritaður ekki séð nein önnur rök mæla með því að staðsetja umdæmisskrifstofu á Hólmavík og t.d. er ófært þaðan um meginhluta umdæmisins meira en hálft árið. Einungis af þessi ástæðu yrði þjónusta stofnunarinnar við Vestfirði slök.``
    Það er eins og þeir viti ekki að það er fært til Ísafjarðar um Steingrímsfjarðarheiði og þó nokkur ár síðan vegur kom þar á milli og það er um það bil þriggja tíma akstur á milli Ísafjarðar og Hólmavíkur að sumarlagi. Yfir veturinn er mokað þarna tvisvar til þrisvar í viku og fólk á Vestfjörðum lætur sér það nægja og kemst þarna eftir því sem það þarf. Mér finnst það stangast á við fullyrðingar að ekki sé hægt að þjóna Vestfjörðum frá Hólmavík en það sé hægt frá Reykjavík. Frá Reykjavík til Hólmavíkur er reyndar heldur ekki nema um það bil þriggja tíma keyrsla.
    Þá telja þeir það einnig mótrök að Hólmavíkurhreppur hefur boðist til þess að aðstoða við þetta með því að ráða tæknimenntaðan mann á móti Fasteignamatinu, en þá tala þeir um að hann muni hafa svo mikið að gera við starf fyrir Hólmavíkurhrepp að hann geti ekki sinnt Fasteignamatinu. Það stangast þarna á hver fullyrðingin af annarri.