Lögregluskóli ríkisins

132. fundur
Fimmtudaginn 18. mars 1993, kl. 12:11:45 (6182)

     Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Herra forseti. Sem svar við fyrstu spurningunni er þetta að segja: Embætti sýslumanna og lögreglustjóra greiða þeim lögreglumönnum laun sem á þeirra vegum stunda nám í Lögregluskóla ríkisins. Hins vegar fá embættin þennan kostnað endurgreiddan af sérstakri fjárveitingu sem dómsrn. hefur vegna þessa kostnaðar. Starfsmannaskrifstofa fjmrn. annast allar greiðslur vegna launa og annars útlagðs kostnaðar samkvæmt kjarasamningum.
    Að því er aðra spurninguna varðar er þetta að segja: Frá því að Lögregluskóli ríkisins var gerður að sjálfstæðri stofnun, 1. júlí 1988, hafa 13 nemendur lokið fyrri önn með fullnægjandi árangri sem ekki hafa lokið síðari önn auk 15 nemenda sem luku fyrri önn í desember 1992 og eiga kost á, sé ráðningu þeirra ekki slitið, að hefja nám á síðari önn í janúar 1994. Af ofangreindum 13 mönnum eiga 7 ólokið starfsnámi þar sem þeir hættu störfum á starfsnámstímanum. Að því er snertir rétt þeirra við umsókn um lögreglustörf sem losna skal það tekið fram að þeir hafa ekki rétt umfram aðra umsækjendur en ýmsir lögreglustjórar munu væntanlega sjá sér hag í að ráða mann sem lokið hefur hluta af grunnnámi lögreglumanna.
    Að því er varðar þriðju spurninguna er þetta að segja: Um sundurliðun og ástæður þess hvers vegna 13 menn eiga eftir að sækja síðari önn skal þetta tekið fram samkvæmt þeim upplýsingum sem dómsmrn. hefur fengið: Sex voru ekki taldir standa sig nægjanlega vel í starfsnámi og voru af þeim sökum ekki sendir í síðari önn. Fjórir þeirra hafa nú verið endurráðnir í kjölfar álitsgerðar umboðsmanns Alþingis. Einn hætti störfum vegna barneigna. Einn flutti úr heimabyggð sinni og var honum boðið að ljúka námi en þáði ekki. Ekki reyndust til stöður fyrir þrjá menn er þeir luku fyrri önn og einn til viðbótar var ekki endurráðinn hjá embætti lögreglustjórans á Keflavíkurflugvelli. Einn var ekki endurráðinn þar sem hann var ekki talinn uppfylla skilyrði um lögreglumenn. Að auki sótti einn fyrri önn skólans sem er í öðru föstu starfi og gegnir lögreglustörfum sem varamaður og héraðslögreglumaður og aldrei stóð til að færi í síðari önn. En þess má geta að frá árinu 1951 hafa alls 62 lokið fyrri hluta náms án þess að hafa lokið þeim síðari.
    Að því er varðar fjórðu spurninguna er þetta að segja: Allar umsóknir um skólavist í Lögregluskóla ríkisins verða að berast frá sýslumönnum eða lögreglustjórum með staðfestingu dómsmrn. um að stöðuheimild sé fyrir viðkomandi nemanda og að hann hafi fengið jákvæða umsögn valnefndar Lögregluskólans og staðist inntökupróf í íslensku og þrekpróf.