Upplýsingamiðlun og aðgangur að upplýsingum um umhverfismál

133. fundur
Fimmtudaginn 18. mars 1993, kl. 12:31:10 (6188)

     Frsm. umhvn. (Gunnlaugur Stefánsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir hönd umhvn. fyrir nál. um frv. til laga um aðgang að upplýsingum um umhverfismál og upplýsingamiðlun.
    Í upphafi vil ég segja frá því að um þetta nál. náðist góð samstaða í umhvn. eins og öll vinna í sambandi við þetta frv. vitnaði um.
    Nefndin hefur fjallað um frv. sem miðar annars vegar að því að tryggja aðgang almennings að gögnum og upplýsingum um umhverfismál og hins vegar að kveða á um upplýsingamiðlun stjórnvalda varðandi þennan málaflokk.
    Á fund nefndarinnar komu fjölmargir aðilar eins og nál. vitnar um og vísa ég til þess sem þar stendur.
    Í grg. með frv. hæstv. umhvrh. segir m.a. svo:
    ,,Markmiðið með frv. eins og kemur fram í 1. gr. þess, er annars vegar að tryggja aðgang almennings að upplýsingum um umhverfismál og hins vegar að tryggja upplýsingamiðlun stjórnvalda til almennings. Talið er eðlilegt að einstaklingar og lögaðilar geti óskað tiltekinna upplýsinga um umhverfismál án þess að hafa sérstakra hagsmuna að gæta. Enn fremur er talið að auka megi áhuga og vitund almennings gagnvart umhverfi sínu með aðgangi að upplýsingum og aukinni upplýsingamiðlun um umhverfismál.``
    Það má segja að vinnan í umhvn. hafi tekið mið af þessari markmiðslýsingu auk þess sem þar var lögð áhersla á að frv. breyti ekki núgildandi venjum og hefðum um að upplýsingar séu gefnar um ýmis mál sem beðið er um munnlega af almenningi og fjölmiðlum.
    Á undanförnum árum hafa verið lögð fram á Alþingi frv. til laga um upplýsingaskyldu stjórnvalda. Lengi hefur verið starfandi nefnd á vegum forsrn. sem hefur m.a. það hlutverk að semja slíkt frv., en sú nefnd hefur ekki lokið störfum. Þrátt fyrir að verið sé að vinna að almennum lögum um þetta efni telur nefndin rétt að nú verði sett í lög ákvæði um aðgang að upplýsingum og upplýsingamiðlun um umhverfismál.
    Ég vil nú í fáeinum orðum geta þeirra breytinga er nefndin varð sammála um að gerðar yrðu á frv. og eins og segir frá í nál.:
    1. Lagt er til að síðari málsgrein 1. gr., þar sem hugtakið ,,stjórnvald`` er skilgreint falli brott og

vísast um það til breytingartillögunnar í 2. tölul.
    2. Breyting sú, sem lögð er til á fyrri málsgrein 2. gr., felur í sér rýmkun á gildissviði hugtaksins ,,stjórnvald`` þannig að ljóst verði að ekkert stjórnvald verður undanskilið hvað varðar aðgang almennings að upplýsingum um umhverfismál. Nauðsyn þykir bera til að frv. taki til fleiri aðila en þeirra sem hafa að lögum vald til að kveða á um réttindi eða skyldur manna á sviði umhverfismála, svo sem rannsóknastofnana sem vinna að gagnaöflun og úrvinnslu gagna en hafa ekki vald til að taka stjórnsýsluákvarðanir. Brtt. við síðari málsgrein 2. gr. byggist á því að ætla má af upptalningu ákvæðisins að það taki ekki til ýmissa upplýsinga, svo sem um hið byggða umhverfi. Er því lögð til sú breyting til rýmkunar ákvæðinu að í stað upptalningar á vatni, lofti, jarðvegi, dýralífi, gróðri, landi og náttúruminjum verði notuð hugtökin ,,umhverfi`` og ,,náttúruauðlindir`` sem taka einnig til fyrrgreindra atriða. Þá er felld brott upptalning á formi upplýsinga enda illmögulegt að telja slíkt upp á tæmandi hátt með tilliti til tæknivæðingar nútímans.
    3. Breytingin á 3. gr. felur í sér að í stað þess að hugtakið ,,aðili`` sé skilgreint og notað í frv. verði 1.--3. mgr. felldar saman í eina málsgrein auk þess sem áréttað er að sá sem óskar upplýsinga skuli beina skriflegri beiðni sinni til þess stjórnvalds sem hefur upplýsingarnar í vörslu sinni. Þá er fellt brott það skilyrði 2. mgr. greinarinnar fyrir veitingu upplýsinga að þær hafi orðið tiltækar eftir að lög þessi taka gildi. Þess í stað er lagt til að stjórnvaldi verði veitt heimild til að synja um slíkar upplýsingar í undantekningarákvæði 4. gr. frv.
    4. Lagt er til að ný grein, er verði 4. gr., bætist við frv. í stað samþykkisreglna þeirra sem koma fram í e- og g-liðum 4. gr. frv. Stjórnvald skal ætíð leita álits viðkomandi þegar um er að ræða mál er varða mikilvæga viðskiptahagsmuni einstaklinga og fyrirtækja eða einkahagi manna.
    5. Lagðar eru til eftirfarandi breytingar á 4. gr.:
    a. Upphafsorðum fyrri málsgreinar verði breytt til áréttingar því að um er að ræða undantekningarákvæði frá meginreglunni um upplýsingaskyldu stjórnvalda og að þessum heimildum til að synja um upplýsingar skuli aðeins beitt þegar sérstaklega stendur á.
    b. Í a-lið fyrri málsgreinar falli orðin ,,og varnarmál`` brott þar sem varnarmál hljóta að falla undir hugtakið ,,öryggi ríkisins``.
    c. C- og f-liðir fyrri málsgreinar verði felldir saman vegna tengsla þeirra atriða er þar heyra undir.
    d. D-liður fyrri málsgreinar falli brott, enda standa ekki rök til þess að hindra upplýsingar á þessum grundvelli.
    e. Orðin ,,nema með samþykki viðkomandi`` í e-lið fyrri málsgreinar falli brott en þess í stað bætist við ný grein, sbr. 4. tölul. brtt.
    f. F-liður fyrri málsgreinar falli brott í samræmi við brtt. í c-lið.
    g. Orðin ,,nema sá samþykki sem í hlut á`` í g-lið fyrri málsgreinar falli brott, en þess í stað bætist við ný grein, sbr. 4. tölul. brtt.
    h. Í stað síðari málsgreinar komi tvær nýjar málsgreinar. Þannig er í samræmi við athugasemdir í 3. tölul. lagt til að stjórnvald hafi aðeins heimild til að synja um upplýsingar sem aflað hefur verið fyrir gildistöku laga þessara. Í nýrri 3. mgr. er síðan lögð til sú breyting að stjórnvaldi skuli í öllum tilvikum skylt að rökstyðja synjun um upplýsingar.
    6. Í breytingum þeim, sem lagðar eru til við 5. gr., felst í fyrsta lagi að fyrri og síðari málsgreinar greinarinnar verði að einni málsgrein. Þá er lagt til að málskotsfrestur lengist í sex vikur þar sem sá frestur, sem settur er fram í frv., þykir veita málsaðila of lítið ráðrúm. Jafnframt er lagt til að í stað þess að miða upphaf málskotsfrests aðila við þau tímamörk, er honum varð kunnugt um synjun, verði miðað við tilkynningu, en slík viðmiðun auðveldar sönnun um upphaf frests. Loks er lagt til að við greinina bætist ný málsgrein þar sem ráðherra er gert skylt að gefa aðilum kost á að koma sjónarmiðum sínum að áður en ákvörðun er tekin í viðkomandi máli.
    7. Lagðar eru til nokkrar breytingar á 6. gr. sem fjallar um heimild stjórnvalds til gjaldtöku fyrir upplýsingar. Með þessum breytingum ætti að vera tryggt að gjaldtaka, sem aðeins skal beita hóflega og í undantekningartilvikum, fæli fólk ekki frá að leita sér upplýsinga. Þá er lagt til að stjórnvald skuli gera þeim er upplýsinga óskar fyrir fram grein fyrir því gjaldi sem hann getur komið til með að þurfa að greiða.
    8. Við 7. gr. eru lagðar til orðalagsbreytingar sem ættu að gera ákvæðið skýrara og ekki eins víðtækt og áður án þess að um beinar efnisbreytingar sé að ræða.
    9. Við fyrri málsgrein 8. gr. er lagt til að skýrsla um ástand og þróun umhverfismála verði birt á árs fresti. Auk þess er lagt til að á brott falli orð þau er kveða á um að skýrsla þessi skuli birt í fyrsta skipti þremur árum eftir gildistöku frv. Helgast þessar tillögur m.a. af því að árleg skýrslugerð þykir vera markvissari og fremur í tengslum við atriði eins og fjárlagagerð en skýrslur sem einvörðungu eru gefnar út á margra ára fresti. Á grundvelli þessara brtt. þykir eðlilegt að slík skýrsla verði í fyrsta skipti birt á árinu 1994. Breytingin á 2. mgr. byggist á því að eins og ákvæðið er orðað í frv. er stjórnvöldum nánast í sjálfsvald sett hvort þau gera grein fyrir lagasetningu, úrskurðum og ákvörðunum á sviði umhverfismála. Með því að fella brott orðin ,,og ástæða er til hverju sinni`` er matssvið stjórnvalda um þetta efni þrengt. Sú skylda mun hvíla á stjórnvöldum að láta af hendi úrskurði á sviði umhverfismála verði þess óskað og

sama mun gilda um ákvarðanir varði þær almannahagsmuni. Umhvn. Alþingis telur eðlilegt að fylgst sé með framkvæmd frv. þessa, ef að lögum verður, á þann hátt að nefndin fái afrit af úrskurðum ráðherra skv. 5. gr. frv. (er verður 6. gr.). Mun nefndin á grundvelli þessa ákvæðis óska eftir að fá slíka úrskurði eftir gildistöku frv.
  10. Lagt er til, með nýrri brtt. sem nú hefur verið dreift, að lögin taki gildi 1. jan. 1993 þar sem full þörf þykir vera á lagasetningu þessari, óháð samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.
  11. Lagt er til að yfirskrift frv. breytist og heiti þess verði: Frumvarp til laga um upplýsingamiðlun og aðgang að upplýsingum um umhverfismál.
    Hv. þm. Árni M. Mathiesen og Lára M. Ragnarsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins en aðrir nefndarmenn undirrita þetta nál.
    Virðulegi forseti. Að lokum vil ég segja að það eru sannarlega tímamót og fagnaðarefni að um jafnbrýnt og stórt mál og þetta skuli hafa náðst góð og traust samstaða. Ég hef áður sagt frá því að löngum hafa staðið yfir umræður þess efnis að sett yrðu lög um upplýsingaskyldu og upplýsingamiðlun stjórnvalda gagnvart almenningi. Nú hefur okkur tekist að ná samkomulagi um þetta, upplýsingamiðlun og upplýsingaskyldu stjórnvalda um umhverfismál gagnvart almenningi, og er þetta stórt skref í því að skapa traust á milli stjórnvalda og almennings andspænis umhverfismálum og síðast en ekki síst stórt skref til þess að efla umhverfisvitund almennings.