Innflutningur á gröfupramma

133. fundur
Fimmtudaginn 18. mars 1993, kl. 12:45:24 (6190)

     Frsm. samgn. (Pálmi Jónsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. samgn. um frv. til laga um heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að leyfa Sveinbirni Runólfssyni sf. innflutning á gröfupramma.
    Nefndin hefur fjallað um þetta frv. á fundum sínum og fengið til fundar til þess að afla upplýsinga Ara Guðmundsson frá Siglingamálastofnun ríkisins og Ragnhildi Hjaltadóttur frá samgrn.
    Frv. þetta er flutt vegna þess að það tæki sem hér um ræðir fellur undir lög um eftirlit með skipum, nr. 51/1987. Samkvæmt skilgreiningu laganna er skip sérhvert fljótandi far, þar með talið svifskip, skíðaskip og önnur skip sérstakrar gerðar nema annars sé getið. Í lögum þessum er kveðið svo á um að ekki megi flytja inn skip sem er eldra en 11 ára, eða eins og þar segir sem er 12 ára eða eldra.
    Sá prammi sem hér um ræðir er hins vegar 22 ára gamall. Þessi prammi er vélarlaus og stendur á fótum við vinnu til þess að bera þau tæki sem notuð eru við gröft.
    Það eru ýmis fordæmi fyrir því að slík frv. hafi verið flutt á Alþingi og samþykkt sem lög og tel ég ekki ástæðu til að rekja þau fordæmi. Jafnframt eru fordæmi fyrir því að ráðherra hafi gefið heimild til innflutnings á viðkomandi tækjum eða skipum fyrir fram með fyrirvara um samþykki Alþingis síðar.
    Að því er þetta tæki varðar þá hefur Siglingamálastofnun ríkisins skoðað prammann og fyrir sitt leyti fallist á innflutning hans þrátt fyrir þau ákvæði laganna nr. 51/1987 sem ég hef þegar vitnað til.
    Í þeim upplýsingum sem nefndin aflaði sér kemur fram að þessi prammi var fluttur til landsins, að vísu í pörtum, þann 22. júní 1992. Samgrn. veitir heimild til innflutnings hans með fyrirvara um samþykki Alþingis þann 10. ágúst 1992 og hann er skráður hjá Siglingamálastofnun ríkisins þann 22. sept. 1992.
    Í skilmálum Siglingamálastofnunar ríkisins kemur fram að gert var ráð fyrir að gera þyrfti á prammanum smávægilegar lagfæringar. Það liggur ekki nákvæmlega fyrir hvort í þær viðgerðir hefur verið ráðist enda er það álit Siglingamálastofnunar ríkisins að það sé á ábyrgð eiganda prammans að því sé framfylgt og kæmi væntanlega fram í því að tryggingar væru ekki fullgildar ef ekki er fylgt þeim skilmálum sem settir eru.
    Það hefur enn fremur komið fram að óhapp varð við notkun prammans. Hann sökk um miðjan nóvember 1992 en var kominn á flot þrem dögum síðar.

    Þrátt fyrir að hér sé um atburðarás að ræða sem ekki er í samræmi við það sem æskilegt hefði verið, og er þó ekki fordæmislaus, er það skoðun nefndarinnar í heild að eðlilegt sé að samþykkja þetta frv. og stendur nefndin öll að því áliti. Á hinn bóginn rita fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna í samgn. undir nál. með fyrirvara.
    Ég legg því til, hæstv. forseti, fyrir hönd samgn. að frv. verði samþykkt eins og það liggur fyrir.