Innflutningur á gröfupramma

133. fundur
Fimmtudaginn 18. mars 1993, kl. 12:50:52 (6191)

     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Frú forseti. Hér er komið til 2. umr. frv. um að leyfa innflutning á gröfupramma sem reyndar er búinn að vera hér síðan í júní í fyrra og virðist hafa verið einkennilega staðið að því máli að leyfa þann innflutning. Að vísu heimilar samgrn. það fyrir sitt leyti með fyrirvara um samþykki Alþingis en þess samþykkis er ekki leitað fyrr en með þessu frv. sem var lagt fram fyrir síðustu áramót en er nú til afgreiðslu.
    Ég hef skrifað undir nál. með fyrirvara og sá fyrirvari er í því fólginn að mér finnst að hér hafi verið nokkuð einkennilega að málum staðið, ekki hvað síst það, sem kemur fram í bréfi samgrn. við spurningum okkar í samgn. frá 15. þessa mánaðar, að pramminn hefur verið skráður hjá Siglingamálastofnun þann 22. sept. 1992 þrátt fyrir að ekki liggi þá fyrir lög frá Alþingi sem heimili innflutninginn en það þarf samkvæmt þeim lögum sem í gildi eru um innflutning skipa þar sem óheimilt er að flytja inn skip sem eru eldri en 12 ára.
    Það má einnig geta þess í því sambandi að í nýju frv. til laga um eftirlit með skipum, sem liggur fyrir hinu háa Alþingi, er heldur ekki slík heimild fyrir hendi þannig að þetta er ekkert hugsað til framtíðar. Það virðist vera að í hvert einasta skipti sem slík mál koma upp þurfi að leita eftir lagaheimild frá Alþingi til þess að flytja inn skip sem þetta því samkvæmt skilgreiningu Siglingamálastofnunar er þetta skip þó hér sé um pramma að ræða. Hvert það fley sem á sjó er látið flokkast sem skip.
    Ég geri, eins og hv. frsm. gat um áðan, ekki athugasemd um að málið verði afgreitt en ég vil vekja athygli á því að hér hefur verið mjög óvanalega að málum staðið og þetta virðist allt hanga í lausu lofti hvað framtíðina snertir. Það virðist heldur ekki eiga að taka á þessu máli með því frv. til laga um eftirlit með skipum sem hér er til umfjöllunar. Ég get ekki varist því að álykta sem svo að Siglingamálastofnun hafi farið út fyrir sitt verksvið með því að skrá þennan pramma hinn 22. sept. án heimildar Alþingis.