Innflutningur á gröfupramma

133. fundur
Fimmtudaginn 18. mars 1993, kl. 12:58:28 (6193)


     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. Ég skrifaði undir nál. með fyrirvara vegna þess að ég ætlaði að gera grein fyrir skoðunum mínum á því. Þær skoðanir fara reyndar saman við skoðanir þeirra þingmanna sem hafa talað á undan mér. Ég vil vekja athygli hv. 2. þm. Norðurl. v. á því að það hefur alla vega ekki verið yfirlýst opinberlega að Guðni Ágústsson væri orðinn hluti af stuðningsmönnum ríkisstjórnarinnar því hann lýsti því

yfir að fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna hefðu skrifað undir með fyrirvara en það gerði Guðni ekki. En það er nú kannski til gamans að tala um það. ( PJ: Ég biðst afsökunar á því.)
    Ég tel að þetta mál beri með sér að það skorti á að menn beri virðingu fyrir lagasetningu. Kannski er ástæða til þess að svoleiðis fer þegar svona er staðið að málum ár eftir ár eins og gert hefur verið, þ.e. í gildi eru lög um eftirlit með skipum en síðan flytja menn, að mér finnst, tiltölulega mörg lagafrv. á þingi vegna einstakra skipa sem flutt eru inn. Þar er sérstaklega um að ræða pramma eins og hér er verið að tala um og reyndar líka önnur skip. Það er vegna þess að þau ákvæði í lögunum um eftirlit með skipum, um að skip megi ekki vera eldri en 12 ára, þykja of ströng og Siglingamálastofnun hefur ítrekað komist að þeirri niðurstöðu að hún geti mælt með því að flutt séu inn eldri skip.
    Nú vill svo til að það liggur fyrir frv. til laga um eftirlit með skipum og þar er tekin afstaða til þessa máls á nýjan leik. Í því frv. kemur fram tillaga um það að í staðinn fyrir 12 ára megi skip vera 15 ára og þar að auki geti Siglingamálastofnun fallist á að skip séu flutt inn sem séu allt að 20 ára gömul.
    Ég er að vekja athygli á þessu vegna þess að á sama tíma er þetta frv. til umfjöllunar þar sem verið er að flytja inn skip sem er 22 ára gamalt. Mér finnst að þarna skorti á yfirsýn hjá mönnum að leysa ekki málin þannig að í algjörum undantekningartilvikum þurfi að flytja lög vegna innflutnings á einstökum skipum.
    Ég vil svo vekja athygli á því að í svokölluðum bandormi vegna samgöngumála sem fylgir EES-lagasetningunni kemur fram að Íslendingar eru skuldbundnir til þess að skrá skip á Íslandi sem hafa hlotið haffærisskírteini í einhverju landi EES-svæðisins og geta þá ekki gert aðrar kröfur til skipsins en þær að það hafi hlotið haffærisskírteini í viðkomandi landi. Það mun óhjákvæmilega bjóða því heim að erlendir aðilar geti flutt inn skip, sem eru eldri en þarna er um að ræða, á þessum forsendum og líka skip sem Siglingamálastofnun ríkisins á Íslandi hefði, ef hún hefði fjallað um viðkomandi skip, kannski gert kröfur um að uppfylltu ákveðin skilyrði til þess að fá haffærisskírteini, kröfur sem ekki eru gerðar í þeim löndum sem þau koma frá. Það eru mörg dæmi um að Siglingamálstofnun ríkisins á Íslandi gerir strangari kröfur til skipa og báta en gert er í löndunum í kringum okkur sem er út af fyrir sig eðlilegt vegna aðstæðna við landið eins og allir Íslendingar þekkja. Hér eru miklu erfiðari aðstæður og það þarf að gera strangari kröfur til skipa sem eru gerð út eða sigla í kringum landið. Það hefur reyndar komið fram og er ástæða til þess að vekja athygli á því að það er umhugsunarefni að akkúrat svona skip, eins og þessi gröfuprammi sem við erum að fjalla um, hafa þó nokkuð mörg sokkið við landið á undanförnum árum.
    Ég held að það sé full ástæða til þess fyrir Siglingamálastofnun að þar velti menn því alvarlega fyrir sér hvort það þurfi ekki að gera meiri kröfur til þessara pramma sem verið er að leyfa innflutning á eða smíði í landinu því þó svo að þeir séu ætlaðir til notkunar í höfnum þarf að draga þá á milli hafna til þess að þeir geti komið að gagni annars staðar en þar sem þeir fara upphaflega á flot. Það hefur boðið þeirri hættu heim að þeir hafa sokkið og eru því miður þó nokkuð mörg dæmi um að það hafi gerst.
    Ég tel þess vegna að það sé full ástæða til að menn hugsi þessi mál betur. Það þarf að fara fram umræða í samgn. um það hvort lögin sem verið er að fjalla um núna eigi að vera akkúrat eins og þau eru sett fram. Ef það verður niðurstaðan þá tel ég að líta eigi á það sem fyrirmæli til Siglingamálastofnunar og yfirlýsingu um það frá hv. Alþingi að ekki sé meiningin að hægt sé að flytja raðir af einhverjum skipum til landsins með því að renna í gegn lagafrv. eins og þessu. Ég tel að ef frv. verður samþykkt eins og það liggur fyrir sé það yfirlýsing um að Alþingi Íslendinga sé ekki að reikna með því að í framtíðinni verði fluttur inn prammi eins og sá sem við erum að tala um og er orðinn yfir 20 ára gamall.
    Ég er alveg tilbúinn að ræða þessi mál í samgn. og í þeirri von að þar geti orðið skynsamleg niðurstaða en ég tel einsýnt að þarna hljóti menn að doka við og sú niðurstaða sem verður í umfjöllun um þetta mál verði látin miðast við það að í framtíðinni ættu menn ekki að standa í því að flytja frv. fyrir einstök fyrirtæki allt í kringum landið sem telja sér einhvern hag af því að flytja inn eitthvert gamalt brotajárn frá löndunum í kringum okkur.