Innflutningur á gröfupramma

133. fundur
Fimmtudaginn 18. mars 1993, kl. 13:10:37 (6195)

     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég get út af fyrir sig fallist á það sem hv. 2. þm. Norðurl. v. var að segja um aldursmörkin. Þau eru vissulega umhugsunarefni og ég tel að það eigum við að ræða vel í nefndinni. En ég tek það aftur fram að ég tel að sú niðurstaða sem þar verður hljóti að verða eitthvað sem menn ætli sér að standa við og ekki verði gert ráð fyrir því að það sé nema í algjörum undantekningartilvikum, og það ætla ég að taka sérstaklega fram að þau geta auðvitað komið upp, og það er einmitt rétt að benda á þetta glæsilega skip þótt gamalt sé sem Slysavarnafélag Íslands hefur óskað eftir að fá leyfi til að flytja til landsins.
    Vegna þess að það féll niður hjá mér áðan vil ég nefna að það sem er auðvitað ákaflega ádeiluvert og Siglingamálastofnun ríkisins þarf að taka til alveg sérstakrar athugunar, það er að Siglingamálastofnunin skráir þennan gröfupramma í sínar bækur og gengur frá skráningu hans sem íslensks skips án þess að búið sé að samþykkja þessi lög í þinginu. Það er augljóslega lögbrot og mér finnst mikið umhugsunarefni að það skuli hafa gerst. Ég vona að ekki hafi verið fleiri dæmi um það því það getur auðvitað valdið ýmsum erfiðleikum og vandræðum ef slíkt gerist að skip er ólöglega skráð í landinu. Ég veit t.d. ekki hvernig hefði farið gagnvart tryggingafélögum ef þessi prammi hefði sokkið, eins og hann gerði, og það hefði síðan komið upp í kjölfarið að hann hefði verið ólöglega skráður og tryggingafélögin hefðu á þeim forsendum kannski neitað að greiða tryggingabætur.