Vernd og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

133. fundur
Fimmtudaginn 18. mars 1993, kl. 13:59:04 (6200)

     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Í fyrra varð mikil umræða um þetta frv. og þá lýsti ég ýmsu af því sem ég vildi koma þar á framfæri og mér finnst engin ástæða til að endurtaka það allt saman aftur. En ég vildi koma einu á framfæri í sambandi við markmið laganna, eða eins og segir í II. kafla um markmið og gildissvið og skýring á 2. gr. er svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Markmið laganna er að skapa grundvöll þess að maðurinn geti lifað í landinu í sátt við villt dýralíf þess. Auk þess að vera friðunarlög taka lögin til atriða sem valdið geta árekstrum við hagsmuni mannsins, sem og nytja af villtum dýrum.``
    Ástæða þess að ég geri þetta að umtalsefni er það að í frv. er fyrst og fremst verið að taka á friðun, vernd og veiðum en lítið tekið á því þegar árekstrar verða milli mannsins og hinna friðuðu dýra, þ.e. þegar hagsmunir þeirra rekast á. Hagsmunir sem jafnvel eru tengdir því að nytja þessa friðuðu fugla og aðrir friðaðir fuglar koma til þess að trufla þær nytjar.
    Eins og hæstv. umhvrh. sjálfsagt veit þá er ég að vitna til þess að margir æðarbændur hafa síðustu ár orðið fyrir talsverðum búsifjum af völdum arnar og á þetta sérstaklega við um þau bú sem eru við Breiðafjörð og Strandir þar sem örninn hefur aðallega aðsetur. Það er ekkert í þessum lögum, að mér sýnist, sem tekur á því hvernig eigi að koma fram í því tilfelli og ekkert sem segir hvert þeir æðarbændur eigi að snúa sér og hvaða rétt þeir eigi raunverulega ef þeir verða ítrekað fyrir ágangi arnar og telja að þeir hafi orðið fyrir umtalsverðum skaða þess vegna.
    Það segir hér í 4. gr. frv. að veiðistjóraembættið hafi umsjón með og stjórn á aðgerðum á opinberri hálfu sem sé ætlað að hafa áhrif af stofnstærð og útbreiðslu villtra dýra eða tjón af þeirra völdum. Ég vil samt sem áður aftur lýsa því að ég tel að hvergi í kerfinu sé tekið á því þegar þessir hagsmunaárekstrar verða, og fólk sem hefur lent í þeim árekstrum telur að ekki sé þarna samræmi á milli villtra fugla, þeir séu hvorir tveggja friðaðir og það fólk sem vinnur að því að friða æðarfuglinn og nýta hann hafi ekki til þess ráðrúm eða frið vegna þess að annar friðaður fugl, þ.e. örninn, gangi mjög mikið á þeirra rétt. Ég vildi benda á þetta og ég veit ekki hvort hæstv. umhvrh. hafi hugsað sér að skoða þetta eða hvort væntanleg er viðbót í sambandi við þá skaðabótaskyldu hugsanlega sem einhver aðili ætti þá að hafa eða hvað eiginlega er til ráða í þessu sambandi. Ég mundi vilja óska eftir því að hv. umhvn. skoðaði þetta mál alveg sérstaklega og hvort ekki er hægt að leita einhverra leiða til þess að koma í veg fyrir þessa árekstra eða a.m.k. koma til móts við sjónarmið æðarbænda í þessu tilfelli.