Vernd og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

133. fundur
Fimmtudaginn 18. mars 1993, kl. 15:10:19 (6207)

     Umhverfisráðherra (Eiður Guðnason) :
    Virðulegi forseti. Ég vil hefja mál mitt á því að þakka þeim hv. þm. sem hafa tekið þátt í þessari umræðu fyrir mjög jákvæðar undirtektir og þá ekki síst við þær breytingar sem hafa verið gerðar á frv. frá því að það var síðast til umræðu. Ég er þess fullviss að hv. umhvn., sem þetta mál fær nú til meðferðar, muni fjalla um og eftir því sem efni standa til taka tillit til þeirra athugasemda sem hér hafa verið fram settar. Ég þarf ekki að víkja að mjög mörgum atriðum en þó örfáum sem til mín var beinlínis beint varðandi efni þessa máls.
    Hv. 6. þm. Vestf., Jóna Valgerður Kristjánsdóttir, fjallaði um búsifjar sem æðarbændur kynnu að verða fyrir af völdum arnarins. Ég geri ráð fyrir að ekki hafi átt að skilja hennar ræðu sem svo að aflétta ætti friðun af arnarstofninum. Hitt er svo að ekki eru mörg dæmi um tjón af þessu tagi, a.m.k. ekki neitt verulegt tjón, en þó eru þau til. Um þetta mál hefur nýlega verið lokið við skýrslu sem var afhent umhvrn., málið var unnið á þess vegum, þar sem er mikinn fróðleik um þetta að finna. Auðvitað hlyti viðkomandi æðarræktandi eða bóndi að leita til nefndar þeirrar sem gert er ráð fyrir í frv. og kölluð er villidýranefnd eða snúa sér til ráðuneytisins eins og gert hefur verið í þeim tilvikum sem upp hafa komið. Það er auðvitað erfitt ef ekki ókleift að setja reglur um þetta, en það er vandamál þar sem saman fer æðarvarp og arnarvarp. Það er alveg ljóst. En ég held að það sé mjög erfitt að setja um þetta fastar reglur vegna þess að sönnunarbyrði í málum af þessu tagi er ekki alltaf einföld.
    Hv. 5. þm. Austurl., Gunnlaugur Stefánsson, gerði athugasemdir við nokkur atriði. Ég tek undir það með honum að ég held að útgáfa veiðikorta eigi alls ekki og megi alls ekki vera hugsuð sem einhvers konar tekjuöflun fyrir ríkissjóð, enda er það alls ekki hugsunin hér. Ég held hins vegar að veiðiskýrslur muni gefa nokkuð rétta mynd af veiðinni því ég hef þá trú að þær mundu samviskusamlega haldnar og reynslan hefur, hygg ég, orðið sú þar sem þessu hefur verið beitt að menn telja þá að skekkjan sé svipuð frá ári til árs þannig að það komi ekki að svo mikilli sök.
    Varðandi hreindýrin er það nú svo að um nýtingu hreindýranna og stjórn á veiðunum hefur tekist mjög bærilegt samkomulag. Ég tel það raunar umhvrn. til tekna að hafa stuðlað að því samkomulagi sem bærileg sátt virðist ríkja um þannig að ég hef svolitlar efasemdir um að hrófla mikið við þeim málum meðan þar ríkir þokkalega gott samkomulag.

    Hv. 7. þm. Reykn., Steingrímur Hermannsson, nefndi hér nokkur atriði. Varðandi réttindi erlendra borgara þá er breytingin frá því sem nú er eingöngu sú að það er bætt við því skilyrði að viðkomandi eigi lögheimili hér á landi. Útlendingar þurfa að sjálfsögðu að uppfylla önnur skilyrði að því er varðar leyfi fyrir skotvopnum og því um líkt.
    Þá ræddi hv. þm. nokkuð um veiðikortin. Það var nú raunar svo að í fyrri gerð frv. var ákvæði um að í sambandi við veiðikortin mætti tiltaka fjölda þeirra dýra sem heimilt væri að veiða. Það var reyndar eitt af því sem sætti mikilli gagnrýni hér í umræðunum í fyrra og það var fellt niður en ég segi þá skoðun mína að mér finnst fyllilega koma til álita að það verði tekið upp að nýju a.m.k. að því er varðar sumar tegundir.
    Þá vék hv. þm. einnig að reglunum um skotvopn, hinar svokölluðu pumpur eða hinar næstum því sjálfvirku hríðskotabyssur, ef svo mætti segja, og fleiri þingmenn hafa vikið að þeim, og hugsanlegum skaðabótum. Ég fjallaði nokkuð um þetta í framsögu með málinu en hygg að hv. þm. sem gerðu þetta að umtalsefni hafi ekki verið viðstaddir þá umræðu og skal ég því efnislega endurtaka það sem ég sagði þá. Í 14. tölul. 9. gr. er talað um að það sé óheimilt að nota hálfsjálfvirk eða sjálfvirk skotvopn, svo og ,,pumpur`` með skothylkjahólfum sem taka fleiri en tvö skothylki. Þetta ákvæði er í fullu samræmi við gildandi reglur í reglugerð um skotvopn og skotfæri, nr. 16/1978, með breytingum sem gerðar voru 1979 og 1988. Í 4. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar, sem fjallar um leyfi fyrir margskotabyssum, segir, með leyfi forseta:
    ,,Leyfi fyrir skotvopnum samkvæmt þessari grein má aðeins veita þeim sem sýnir fram á að hann hafi þörf fyrir að eiga þau og sýnir jafnframt fram á sérstaka hæfni í meðferð skotvopna.`` Enn fremur segir í 6. mgr.: ,,Að jafnaði skal ekki veita leyfi fyrir haglabyssum sem taka fleiri en tvö skothylki.``
    Það er ljóst af þessu að það er ekki gert ráð fyrir því í dag að leyfi sé veitt fyrir margskotabyssum sem taka fleiri en tvö skothylki í skothylkjahólf nema sýnt sé fram á sérstaka þörf fyrir slíkt og varla geta sportveiðar talist til slíkra sérþarfa. Hér er því alls ekki verið að leggja til breytingu á gildandi reglum um skotvopn og alls ekki um að ræða einhverja eignaupptöku eins og gefið hefur verið í skyn í sumum fjölmiðlum.
    Í 7. mgr. 3. gr. þessarar reglugerðar segir að lögreglustjóri hafi heimild til að veita leyfi fyrir hálfsjálfvirkum byssum sem fluttar voru til landsins fyrir gildistöku laga um skotvopn, sprengiefni og skotelda, nr. 46/1977, að fullnægðum ákveðnum skilyrðum. Einhverjar af þessum byssum eru í dag skráðar sem fjögurra til fimm skota og bannar frv. sem slíkt ekki að menn eigi þær og noti til að skjóta á mark en ef menn vilja nota slíkar byssur til veiða, þá verður að gera á þeim smávægilega breytingu. Hún felst ekki í öðru en því að setja í þær plasttappa, sem kostar sennilega innan við 500 kr., og breytir í engu eiginleikum byssunnar að öðru leyti en því að ekki komast nema tvö skot í skothylkjahólfið. Þetta er í samræmi við alþjóðareglur sem við erum aðilar að. Gildandi reglur um þessi atriði eru því skýrar. Almennur veiðimaður á ekki að geta fengið leyfi fyrir haglabyssum sem taka þrjú eða fleiri skot í magasín eða eru hálfsjálfvirkar.
    Hitt er svo annað mál hvernig gildandi ákvæðum um skotvopn hefur verið framfylgt af lögregluyfirvöldum en samkvæmt upplýsingum frá þeim aðalvarðstjóra Reykjavíkurlögreglunnar sem hefur með þessi mál að gera, hefur lögreglan í Reykjavík ekki skráð nema tveggja plús eins skota haglabyssur í nokkur ár en einhver brögð munu hafa verið að því að annars staðar á landinu að leyfi hafi verið veitt fyrir fimm skota byssum. Og raunar í viðtali við þennan umrædda lögregluvarðstjóra, Jón Bjartmarz, sem birtist hér í blöðum fyrir skömmu, segir m.a.:
    ,,Reglurnar um þetta hafa í raun verið alveg skýrar. Þetta er því ekki stórfelld breyting á þeim heldur spurning um að framfylgja þeim betur --- kveða skýrar á um þær. Ætlunin er væntanlega að framkvæmdin verði betri en verið hefur. Ég held að maður hafi alla tíð verið fylgjandi þeim ákvæðum sem verið hafa. Menn hafa í raun og veru ekkert við fleiri skotafjölda að gera á fuglaveiðum.``
    Hér er minni breyting á ferðinni en ýmsir hafa gert ráð fyrir og gengið út frá í umræðum um málið.
    Hv. þm. Steingrímur Hermannsson spurði einnig um nokkur önnur atriði og spurði hvort þau væru framkvæmanleg. Hér komum við að töluvert miklu kjarnaatriði í málinu. Auðvitað má halda því fram að ýmislegt af því sem hér er tiltekið sé illframkvæmanlegt og kalli á mikið eftirlit. En þá komum við líka að því atriði að það verður að treysta mönnum að ákveðnu marki og það verður að treysta mönnum til að fara eftir þeim reglum sem eru í gildi. Það er t.d. alkunna, eins og ég veit að hv. þm. veit, að í sumum bandarískum háskólum tíðkast ekki sú regla að setið sé yfir nemendum í prófi. Það er byggt á þeirri heiðursmannareglu að menn hafi ekki rangt við. Ég held að við verðum að horfa líka svolítið á þetta frá sama sjónarmiði. Það verður að treysta því að menn séu heiðarlegir og ganga út frá því. En auðvitað eru þeir til sem telja reglurnar gilda um alla aðra en sig, það veit ég. Þess vegna þarf að fylgjast með þessu. En það verður auðvitað aldrei framkvæmanlegt að á öllum stundum sé hægt að fylgjast með öllum veiðum.
    Hv. þm. Pálmi Jónsson vék hér að því að honum þætti of mikið vald flutt til ráðherra. Það er auðvitað skoðun sem sjálfsagt er auðvelt að rökstyðja með tilliti til málsins og ég ætla ekki að hafa mörg orð um það en varðandi 16. gr. um nýtingu selastofnsins, sem hann vék að, þá er það nú ekki alveg nákvæmt að það mál hafi að öllu leyti fallið undir landbrn. Ég hygg að frekar megi segja að þetta hafi verið að nokkru leyti milli ráðuneyta. En ég endurtek það sem ég sagði áðan að orðalag 16. gr. er málamiðlun, tilraun til þess að ná samkomulagi um að þetta sé með ákveðnum hætti. Mér er alveg ljóst að menn geta haft ólíkar skoðanir á því. En það verður þá nefndarinnar og meiri hluta Alþingis að ákveða hvernig með þau mál skuli farið.
    Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson nefndi nokkur atriði. Ég tel mig þegar hafa svarað því sem snýr að byssunum. Varðandi veiðikortin hafa menn ýmsar skoðanir. Ég er þeirrar skoðunar að brýnt sé að koma þessu á, þetta sé aðhaldsatriði og þegar Grænlendingar, grannar okkar hér í vestri, telja þetta óhjákvæmilegt þar sem eru stundaðar miklar veiðar á mörgum tegundum, þá er ég þeirrar skoðunar að þetta sé engu að síður brýnt hjá okkur. Í rauninni er hluti af siðfræði góðra veiðimanna að skrá það sem þeir veiða, skila um það skýrslum alveg eins og þeir sem veiða fisk á stöng gera þó að það sé eins og hér hefur komið fram að þeim skýrslum sé skilað til veiðifélaganna. Ég á svolítið erfitt með að skilja þá andstöðu sem þessi hugmynd mætir vegna þess að ég held að hún sé rétt og ég held að hún eigi fullan rétt á sér og sé skynsamleg.
    Að lokum, virðulegi forseti, hv. 1. þm. Norðurl. v. gerði nokkur atriði að umtalsefni, m.a. veiðar á snörufleka eins og voru tíðkaðar við Drangey á sínum tíma. Því er enn til að svara að það er í samræmi við Parísarsáttmálann sem við bönnum veiðar af því tagi. Þær eru bannaðar þar alveg eins og þau vopn sem hér hafa verið til umræðu. En ég ítreka að lokum, virðulegi forseti, þær mjög jákvæðu undirtektir sem frv. hefur fengið við þessa umræðu og þrátt fyrir þær tiltölulega smávægilegu athugasemdir sem fram hafa komið og lýsi þeirri von að okkur megi takast á hinu háa Alþingi að afgreiða frv. sem lög áður en störfum lýkur hér í vetur með þeim breytingum sem hv. umhvn. og Alþingi telur eðlilegt að á því séu gerðar.