Vernd og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

133. fundur
Fimmtudaginn 18. mars 1993, kl. 15:28:01 (6209)

     Umhverfisráðherra (Eiður Guðnason) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég tek undir það með hv. þm. að æskilegt væri að hafa meira fjármagn til umráða til þess að halda uppi slíku eftirliti og ég er honum sömuleiðis sammála um það sem hann sagði um þessi vélknúnu ökutæki og notkun þeirra við veiðar. Það er rétt sem hann segir með skotvopnin, þau hafa verið og eru seld hér, en þar þurfum við að koma á breytingum. Ég er ekki veiðimaður, ég skal viðurkenna það. En ég sé ekki rök fyrir því að nota það sem sumir kalla hríðskotabyssur við fuglaveiðar, þ.e. þessar sjálfvirku eða hálfsjálfvirku 5 skota byssur. Það er ekki leyft og það á ekki að gera og það gera áreðanlega góðir veiðimenn ekki og um þetta atriði erum við hv. 7. þm. Reykv. algerlega sammála.