Neyðarráðstafanir gegn neyslu áfengis og annarra vímuefna

133. fundur
Fimmtudaginn 18. mars 1993, kl. 15:46:58 (6212)

     Ingibjörg Pálmadóttir :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. 1. flm. fyrir að hreyfa þessu mikilsverða máli hér. Aðalinntak þessarar þáltill. er, eins og hv. flm. sagði, að sameina þessa krafta, ríkisvalds, sveitarstjórna, lögreglu, skóla, kirkju og foreldrasamtaka til að taka saman höndum og vinna gegn þessum mikla vágesti sem áfengis- og vímuefnavandinn leiðir yfir fólk. Það er rétt sem hv. flm. segir að það berast æ oftar slæm tíðindi af ungu fólki og jafnvel börnum sem beita slíku ofbeldi að jafnvel dauði hlýst af. Orsakir slíkra voðaverka eru oft vegna þess að raunveruleikaskyn barna er skert af ýmsum orsökum. Þessi börn hafa ekki kynnst hlýju og ekki ástúð en eru alin upp við aðstæður sem eru ekki börnum bjóðandi. Foreldrar geta ekki sýnt þá ábyrgð sem fylgir því að vera uppalandi og foreldri og sú fyrirmynd sem þessi börn hafa er því miður oft fengin úr sjónvarpi og kvikmyndum sem þau horfa á. Það eru gjarnan ofbeldismyndir sem villa um fyrir börnum þannig að raunveruleikaskyn þeirra verður enn þá skertara og afleiðingarnar jafnhræðilegar og raun ber vitni. Því er það von þeirra sem flytja þessa þáltill. að þessir hópar sem hér hefur verið talað um sameini nú krafta sína til að finna leiðir til úrbóta.