Hvalveiðar

133. fundur
Fimmtudaginn 18. mars 1993, kl. 16:15:36 (6217)

     Björn Bjarnason :
    Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Guðjóni Guðmundssyni fyrir að flytja þessa tillögu í þinginu. Ég held að nauðsynlegt sé að við ræðum þetta mál og fjöllum um það hvernig best verði staðið að því eins og hann réttilega komst að orði og vitnaði þar í starfsáætlun ríkisstjórnarinnar, að við snúum vörn í sókn í þessu mikilvæga máli. Staðreynd er að þær þjóðir, sem hafa stundað hvalveiðar og telja rétt að allar þjóðir hafi rétt til þess að stunda slíkar veiðar, enda sé tekið fullt tillit til stofnstærðar og ástands í hafinu, eru ekki aðeins í vörn heldur hafa þær verið á miklu undanhaldi á undanförnum árum og eiga við mjög óljósa andstæðinga að etja sem birtast í mörgum myndum og koma fram við hin ólíklegustu tækifæri og valda þessum þjóðum tjóni með þeim hætti að það er ákaflega erfitt að verjast í þeirri baráttu. Engu að síður er nauðsynlegt að halda henni áfram og finna leiðir til þess að fá almennt viðurkennt á alþjóðavettvangi að menn eigi að hafa rétt til þess að nýta sjávarspendýr, hvali, eins og annað sem í sjónum syndir.
    Það er merkilegt og er til marks um stöðu málsins á alþjóðavettvangi að litið var á það sem mikilvæga fótfestu í þessu máli að það náðist að fá það samþykkt á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Ríó sem vitnað er til í greinargerð með tillögunni að reglur um sjálfbæra nýtingu skuli gilda bæði um fiskstofna og sjávarspendýr með þeim takmörkunum að ekki verði veitt úr þeim stofnum sem taldir eru í hugsanlegri útrýmingarhættu. Jafnvel var talið áður en til þessa fundar kom í Ríó að samþykkt sem þessi næði ekki fram að ganga, að svo langt væru ýmsir reiðubúnir til að ganga til að koma í veg fyrir að þessi eðlilega samþykkt yrði gerð. Við þingmenn og fulltrúar Alþingis á þingi Evrópuráðsins stöndum nú í þeim sporum þar að fá vonandi eitthvað svipað samþykkt á þeim vettvangi. Þar var nýlega í heimsókn forsætisráðherra Noregs, Gro Harlem Brundtland og átti verulega undir högg að sækja gagnvart ýmsum þingmönnum vegna fyrirspurna sem til hennar komu um stefnu Norðmanna varðandi hvalveiðar. Því er ákaflega mikilvægt að ræða það hér á Alþingi eins og annars staðar meðal okkar Íslendinga hvernig við stöndum best að því að verja rétt okkar í málinu og koma í veg fyrir að þeir nái sínu fram sem vilja alfarið og um aldur og ævi banna þjóðum að nýta sjávarspendýr og hvali í hafinu.
    Ég verð að lýsa því yfir, frú forseti, að ég er ekki viss um að rétta leiðin sé sú að gera nú tafarlaust ráðstafanir til að hvalveiðar geti hafist hér við land næsta sumar. Ég er ekki alveg sannfærður um að það sé það rétta skref sem við eigum að stíga nú í þessu máli, en ég hlýddi á rök hv. síðasta ræðumanns um það mál og er að sjálfsögðu reiðubúinn til þess að breyta þessu viðhorfi mínu við nánari umhugsun og umræður í þinginu ef þær verða. Eins og hv. flm. gat um held ég að þannig hafi verið sótt að okkur hvalveiðiþjóðum að undanförnu að það sé meira sem við þurfum að vinna og ýmis verkefni kannski brýnni til þess að tryggja rétt okkar en hefja hvalveiðar strax á næsta sumri. Og það sem mér finnst að þessar umræður í þinginu og í hv. sjútvn. þurfi m.a. að snúast um er að meta þessa stöðu, hvaða skref eru skynsamlegust næst. Á síðasta ári var það talið skynsamlegt af mörgum og ákveðið að við segðum okkur úr Alþjóðahvalveiðiráðinu. Ég tel að þar hafi verið vettvangur sem við gátum unnið þessum málstað fylgis og við hefðum e.t.v. verið betur settir að gera það á þeim vettvangi því að þessi barátta þarf að fara fram jafnt á umhverfisráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, á þingi Evrópuráðsins, innan vébanda Alþjóðahvalveiðiráðsins og hvarvetna þar sem rödd Íslands heyrist og þetta mál er til umræðu, að vinna að þessu og standa vörð um þetta grundvallarsjónarmið til þess að brjóta það á bak aftur að þessi réttur okkar verði takmarkaður.
    Ég vildi aðeins, frú forseti, koma hér upp og lýsa þessari skoðun minni. Ég held að við verðum að gera okkur grein fyrir því að þessi málstaður á verulega undir högg að sækja og það þarf með samræmdum aðgerðum mjög víða að gera ráðstafanir til þess að verja hann og standa á þessum rétti. Síðan þurfum við að velta því fyrir okkur hvaða leiðir séu bestar í þessari baráttu, hvort það er að hefja nú þegar hvalveiðar eða hvort stíga eigi einhver önnur skref til þess að við höfum þennan rétt óskoraðan og getum nýtt hann og í góðri sátt við aðrar þjóðir þegar vísindalegar forsendur eru því til stuðnings að hvalir séu veiddir eins og vissulega er nú umhverfis landið og hv. ræðumaður gat um. En við verðum að skoða málið í heild og velta stöðunni fyrir okkur í heild.