Hvalveiðar

133. fundur
Fimmtudaginn 18. mars 1993, kl. 16:50:57 (6226)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Frú forseti. Það er mjög mikilvægt að við komum málstað okkar á framfæri á erlendum vettvangi. Hins vegar er mikið umhugsunarefni hvernig staðið er að því að koma sjónarmiðum okkar fram og þar verðum við fyrst og fremst að miða að því að koma okkar rökum og sjónarmiðum fram við þá sem hafa áhrif og eru skoðanamótandi. Ég held að að sé ekki líklegt að við förum út í einhvers konar meiri háttar áróðursstríð eða auglýsingastríð meðal annarra þjóða. Bæði yrði það allt of kostnaðarsamt og eins mikið álitaefni hversu miklum árangri slíkar herferðir skila. Aðalatriðið er að ná til þeirra sem eru að móta skoðanir og hafa áhrif, stjórnmálamanna, fjölmiðlamanna og forustumanna í hagsmunasamtökum af ýmsu tagi, og upplýsingamiðlun okkar miðar fyrst og fremst að því að ná þeim árangri.
    Við höfum haft áhuga á því að hefja hrefnuveiðarnar sem allra fyrst. Hins vegar hefur engin ákvörðun verið tekin um að hefja þær næsta sumar og vissulega verðum við að hafa þar í huga hversu hratt við náum árangri innan NAMMCO því að við verðum að vinna að framgangi þessara mála í samræmi við þær alþjóðlegu skuldbindingar sem við höfum tekist á hendur og ekki síst með tilliti til ákvæða alþjóðahafréttarsáttmálans.