Hvalveiðar

133. fundur
Fimmtudaginn 18. mars 1993, kl. 16:52:53 (6227)

     Eyjólfur Konráð Jónsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég stend kannski upp fyrst og fremst til þess að þakka hv. þm. Guðjóni Guðmundssyni og Matthíasi Bjarnasyni fyrir að flytja tillöguna og raunar þakka líka sjútvrh. sem hefur nú upplýst okkur um það að ýmislegt sé að gerast til að styrkja stöðu okkar í þessum málum.
    Það er alveg rétt að í hafréttarsáttmálanum eru greinar sem fjalla um þetta og vernd hvala er þar ríkuleg. Engu að síður gátum við hafið vísindaveiðarnar eins og menn vita og ég held að það fari ekki á milli mála að við getum framkvæmt það sem þessi tillaga hljóðar um og við eigum að reyna að sameinast um það. Ég held að engin hætta sé á ferðum sem um er talandi í því efni. Ég held að hægt sé að gera það sem hv. flm. eru að segja okkur. Náttúrlega eru fáir menn kunnari þessu en hv. þm. Matthías Bjarnason, að ólöstuðum 1. flm. enda fylgdist hann náttúrlega mjög náið með störfum hafréttarráðstefnunnar og öllu því sem þar gerðist, en þar unnum við stanslaust að því að tryggja hag okkar í þessu efni eins og í fiskveiðum okkar og hafréttarmálum almennt. Því er mjög ánægjulegt að þessu máli skuli nú hreyft og ég lýsi að sjálfsögðu yfir fyllsta stuðningi við það. En auðvitað þarf að fara með þeirri gætni og með þeim hyggindum sem við erum vanir og höfum gert oftast í sjálfstæðis- og fullveldismálum okkar, ekki kannski alveg alltaf, ekki stundum upp á síðkastið. Það er alveg ljóst að við eigum að sameina kraftana um það að varðveita þessa eign okkar, þessa auðlegð okkar.