Hvalveiðar

133. fundur
Fimmtudaginn 18. mars 1993, kl. 17:05:48 (6231)

     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég spurði einfaldlega vegna þess að ég hef verið að hlusta á ræður manna um þetta mál og ég hef ekki getað fundið annað út úr því sem menn hafa verið að segja en það þurfi að gera þetta og gera hitt áður en hægt sé að fara að veiða hvali og mér finnst það ekki passa nákvæmlega við það sem stendur í tillögunni, þ.e. að veiðarnar geti hafist næsta sumar. Og það verður hver að lá mér það sem vill að ég skuli ekki skilja betur það sem hér hefur verið sagt.
    Ég vil svo segja það til viðbótar að ég vil þakka flm. tillögunnar og flutningsmönnum fyrir að hafa borið hana fram og ég mun styðja hana. En mér finnst hún dálítið minna á þyrlumálið að því leyti til að hún er á svipaðan hátt vantraust á forustu ríkisstjórnarinnar í málinu. En ég veit ekki hvort það er ástæða til þess að vantreysta henni, ég skal ekkert segja um það. Það kemur í ljós.