Hvalveiðar

133. fundur
Fimmtudaginn 18. mars 1993, kl. 17:27:11 (6237)

     Guðjón A. Kristjánsson :
    Hæstv. forseti. Ég vil lýsa þeirri skoðun minni að ég tel að þetta sé hin þarfasta tillaga sem hér er til umræðu og styð hana heils hugar. Ég tel að við ættum þegar á þessu ári að hefja hval- og hrefnuveiðar með þeim hætti að standa þétt með Norðmönnum sem eru að fara að hefja veiðar í atvinnuskyni og takast sameiginlega á með þeim í því áróðursstríði sem þeir verða ábyggilega fyrir af ýmsum umhverfisverndarsamtökum. Það er nú einu sinni þannig með þessi umhverfisverndarsamtök að þau taka ekki rökum, alla vega ekki í þessu máli, og það næsta sem mun upp koma, ef þeim tekst að koma í veg fyrir það að við nýtum hvalinn, er að þau munu snúa sér að því að hefja áróðursstríð gagnvart fiskveiðum með einhverjum hætti. Þeir eru þegar byrjaðir á því varðandi ýmis veiðarfæri, þau séu óvistvæn og skaði fiskinn og meginstefnan í öllum þeirra áróðri varðandi dýrastofna er sú að ef einhvers staðar er óvissa, þá skal það koma dýrastofnunum til góða. Þetta þýðir á einföldu máli að geti menn ekki sýnt 100% fram á það að eitthvað sé ekki viðkomandi dýrastofni hollt eða til framtíðarnýtingar, þá skuli sú óvissa vera til þess að veiðar séu ekki hafnar og ekki haldið uppi. Þetta er náttúrlega algerlega óviðunandi viðhorf sem við getum hvergi samþykkt. Með sömu rökum mætti halda því fram að við ættum að steinhætta þorskveiðum því að vísindamenn okkar hafa sagt að við værum á hættulegri braut í þorskveiðunum. Þar ætti sem sagt óvissan að koma dýrastofninum algerlega til góða. Þetta eru rök sem við getum ekki samþykkt, að óvissuþættir séu það afgerandi í nýtingu dýrastofna að þar megi enga áhættu taka þó að lífsbjörg þjóða hvíli á því að nýta dýrastofna.
    Þetta vildi ég sagt hafa og ætla ekki að lengja þessa umræðu. Mér finnst hún hafa verið góð. Hér hafa flestallir og allir sem ég hafi heyrt í lýst yfir stuðningi við tillöguna og ég ítreka stuðning minn við hana.