Hvalveiðar

133. fundur
Fimmtudaginn 18. mars 1993, kl. 17:34:51 (6240)

     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég segi það enn og aftur að það er ekki hægt að líta á þessa tillögu sem stuðning út af fyrir sig við ríkisstjórnina. Það eru þarna skýr og klár fyrirmæli til ríkisstjórnarinnar í tillögunni, það eru skýr og klár fyrirmæli um það að Alþingi feli ríkisstjórninni að gera ráðstafanir til að hvalveiðar geti hafist næsta sumar. Það er ekki hægt að misskilja tillöguna með nokkru móti og það er þess vegna sem ég tel að þegar menn eru síðan að tala um að fara sér að engu óðslega og annað því um líkt, þá verði það heldur ekki skilið öðruvísi en þeir menn sem þannig taka til orða efist um að það sé hægt að hefja hvalveiðar á næsta sumri. Mér finnst að menn eigi bara að vera heiðarlegir og segja já við því. En þá hljóta þeir að eiga mjög erfitt með að samþykkja þau fyrirmæli sem eru í tillögunni.