Hvalveiðar

133. fundur
Fimmtudaginn 18. mars 1993, kl. 17:55:28 (6247)


     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Hér hefur nokkuð komið til tals verksvið og valdsvið NAMMCO. Það er rétt að það komi hér fram að í stofnsáttmálanum er gert rað fyrir því að NAMMCO geti tekið að sér vísindalega ráðgjöf og stjórnun á öllum sjávarspendýrum. Í stofnsáttmálanum er engin takmörkun að þessu leyti. Það er hins vegar samkomulag þeirra þjóða sem eiga aðild að NAMMCO að fyrst í stað takmarkist verksviðið við minni hvali sem fallið hafa utan við valdsvið Alþjóðahvalveiðiráðsins og seli. Við höfum hins vegar ávallt gert grein fyrir því að við mundum á einhverju stigi óska eftir því að stærri hvalategundir yrðu teknar til meðferðar innan NAMMCO og þegar í byrjun þessa árs hreyfðum við því að hrefnan yrði með einum eða öðrum hætti tekin til umfjöllunar og þá auðvitað fyrst innan vísindanefndar NAMMCO.
    Það er nauðsynlegt að þetta komi fram til þess að skýra stöðuna. Það er ekkert í stofnsáttmálanum sem útilokar að NAMMCO taki til allra hvala en til þess þarf samþykki allra þeirra sem þar eiga hlut að máli.
    Hv. 1. flm., hv. 5. þm. Vesturl., las hér upp úr nokkrum ályktunum samtaka sjómanna og útvegsmanna. Í þeim öllum var vikið að því grundvallaratriði að hvalurinn étur mikið af sjávarfangi og mikið af fiski og er þess vegna í beinni samkeppni við okkar eigin veiðar. Það eru hafnar fjölstofnarannsóknir sem vissulega eiga eftir að leiða frekar í ljós hver tengslin eru þarna á milli en fyrstu niðurstöður okkar vísindamanna benda til þess að hér sé um mjög umfangsmikla samkeppni að ræða. Þeir telja að hvalirnir umhverfis Ísland éti yfir 4 milljónir lesta á ári og þar af 1--1,5 milljónir lesta af fiski, þ.e. þeir eru að éta jafnmikið og við veiðum sjálfir á hverju ári.
    Við háðum langa baráttu til þess að koma Bretum og Þjóðverjum út fyrir 200 mílna fiskveiðilögsögumörkin. Þessar þjóðir verja nú afrán hvalanna og hindra það að við getum nýtt hvalina þannig að eðlilegt jafnvægi ríki í lífríki hafsins umhverfis landið. Á vissan hátt halda þessar þjóðir því enn fram stefnu sem skaðar hagsmuni okkar með svipuðum hætti og áður. Það er þess vegna mikilvægt að við gerum okkur grein fyrir því að það eru ekki einungis umhverfisverndarsamtök, það eru ekki einungis Greenpeace-samtökin og önnur samtök af því tagi, sem hér eiga hlut að máli og við eigum í höggi við. Það er líka afstaða ríkisstjórna sem verja sjónarmið þessara samtaka sem við þurfum að glíma við í þessu máli til þess að tryggja og verja okkar hagsmuni.
    Ég vil að lokum ítreka þakklæti mitt til flm. Ég tel að það hafi verið mjög mikilvægt að málinu var hreyft með þessum hætti á Alþingi og þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur farið fram og ég treysti því að innan hv. sjútvn. og eftir atvikum utanrmn. muni þetta mál fá ítarlega umfjöllun og Alþingi geti gert um það ályktun á þessu vori.