Eiginfjárstaða innlánsstofnana

134. fundur
Föstudaginn 19. mars 1993, kl. 11:41:47 (6255)


     Halldór Ásgrímsson :
    Virðulegur forseti. Það mál sem hér er til umfjöllunar er til komið vegna þeirra erfiðleika sem nú steðja að íslensku efnahags- og atvinnulífi. Það mætti hafa um það mál mörg orð og gagnrýna ríkisstjórnina fyrir stefnu hennar í þessum málum. Ég ætla þó að láta hjá líða að þessu sinni að fara mikið inn á þau mál en auðvitað er það ljóst að Landsbanki Íslands er mjög mikilvægur hlekkur í íslensku efnahags- og atvinnulífi og því nauðsynlegt að standa við bakið á þeim banka eftir því sem nokkur kostur er, enda sé það allt innan eðlilegra marka.
    Það er ljóst að nauðsynlegt er að styrkja efnahagsreikning Landsbankans um þessar mundir og ég segi það fyrir hönd míns flokks að við teljum að þær aðgerðir sem verið er að grípa til séu mjög mikilvægar í því sambandi. Ég vil hins vegar gagnrýna þá meðferð sem þetta mál hefur fengið. Það er ljóst að ríkið ber ábyrgð á öllum skuldbindingum Landsbanka Íslands. Landsbanki Íslands er ekki í slæmri lausafjárstöðu heldur þvert á móti en það var nauðsynlegt að styrkja efnahag hans þrátt fyrir það. Ég tel að það hafi verið mjög þýðingarmikið að gera það með skjótum hætti en án þeirrar miklu umræðu og sjónarspils sem þar fór fram. Ég tel að bæði hafi ráðherrar verið með klaufalegar yfirlýsingar og það hafi verið mikið um óundirbúnar skyndiákvarðanir.
    Þrátt fyrir allt þetta óðagot sem þarna átti sér stað er það að baki og mikilvægt að taka efnislega afstöðu til málsins burt séð frá því og ég mun því ekki láta það hafa áhrif á afstöðuna til málsins á síðasta stigi. Ég vænti þess hins vegar að það sem þarna gerðist verði mönnum nokkur lexía og reynsla fyrir framtíðina en auðvitað eiga fjölmiðlar jafnframt verulega sök hér. Það er nú svo að fjölmiðlar okkar virðast helst hafa áhuga fyrir því oft og tíðum að gera sem mest úr vandasömum málum og gera meira úr þeim en efni standa til. Þetta er veruleiki sem menn lifa við og ætti því hæstv. ráðherrum ekki að vera ókunnugt um það og því er að mínu mati undarlegt þegar ráðherrar koma í beina útsendingu á sjónvarpsstöðvum og lýsa slíkum málum fram og til baka. Það tel ég ekki vera vönduð vinnubrögð og hefði verið hægt að komast hjá öllum þessum titringi.
    Efh.- og viðskn. hefur farið mjög ítarlega yfir þetta mál og það hefur verið mín skoðun og okkar fulltrúa Framsfl. í nefndinni að það væri mikilvægt að tryggja sem besta samstöðu um afgreiðslu málsins og tryggja sem skjótastan framgang þess. Þrátt fyrir allt er það aðalatriðið að koma þessum ráðstöfunum á þannig að engin óvissa ríki um framtíð bankans. Ég vil í nokkrum orðum gera grein fyrir afstöðu okkar fulltrúa Framsfl. í nefndinni. Við teljum að 1. og 2. gr. séu eðlilegar og munum styðja þær. Það hefur komið til umræðu hvaða fyrirkomulag skuli vera á stuðningi ríkissjóðs. Ég túlka það svo eftir ræðu hæstv. viðskrh. að þar verði fyrst og fremst gengið frá málum eins og traustast er fyrir bankann. Aðalatriðið hlýtur að vera það fjárframlag sem þar er rætt um, þ.e. 2 milljarðar kr. Hvernig það er fært í bókum bankans tel ég ekki vera úrslitaatriði þar sem það mun hafa sömu áhrif á eiginfjárstöðu hans hvort sem það er tekið í gegnum rekstrarreikning eða höfuðstól. Öllum þeim sem lesa reikninga bankans af kostgæfni hlýtur að vera það ljóst að hvort sem það er tekið gegnum rekstrarreikning eða ekki þá er þar um sömu tölur að ræða og er því skýringaratriði við reikningana.
    Í 3. gr. frv. er gert ráð fyrir því að Tryggingarsjóður viðskiptabanka fái nýtt hlutverk og þetta hlutverk sjóðsins verði það að lána viðskiptabönkum fé, svokölluð víkjandi lán, til þess að tryggja eiginfjárstöðu þeirra. Það er alveg ljóst að með þessu fær sjóðurinn alveg breytt hlutverk sem hlýtur að kalla á endurskoðun á ákvæðum um hann. Það er mjög líklegt að t.d. þeir bankastjórar sem sitja í stjórn sjóðsins í dag gætu orðið vanhæfir til að fjalla um málefni sjóðsins. Stjórn sjóðsins hlýtur að þurfa að kanna ítarlega fjárhag viðkomandi banka og það getur verið vafasamt að bankastjórar eða æðstu yfirmenn banka fái með þeim hætti aðgang að ýmsum upplýsingum, trúnaðarupplýsingum um samkeppnisaðila sem leynt þurfa að fara samkvæmt eðli máls. Það getur jafnframt verið óeðlilegt að æðstu yfirmenn banka fjalli um málefni eigin banka í stjórn slíks sjóðs. Á þetta sjónarmið var í reynd fallist í efh.- og viðskn. enda kemur eftirfarandi fram í nál. meiri hlutans, með leyfi forseta: ,,Meiri hluti nefndarinnar telur nauðsynlegt að endurskoða ákvæði laga um tryggingarsjóði viðskiptabanka og sparisjóða og mun taka þau mál til meðferðar við umfjöllunar nefndarinnar á frv. til laga um viðskiptabanka og sparisjóði.``
    Ég hef skilið hæstv. viðskrh. þannig að hann taki undir þetta sjónarmið án þess að það hafi komið fram hvernig þessum lögum verði beitt. En það hlýtur að teljast eðlilegt að það verði gert í samvinnu viðskrn. og efh.- og viðskn. við meðferð þessa máls. Ég tel mjög nauðsynlegt að gera það sem fyrst og reikna með því að nefndin leggi sérstaka áherslu á að vinna í þessu frv. á næstunni í því skyni að geta afgreitt það sem fyrst.
    Það er jafnframt nauðsynlegt að mínu mati að gera það í ljósi þess sem nú er komið upp því það frv. fjallar um starfsemi þessara innlánsstofnana og er rétt að líta til þess og breytinga á því í ljósi þeirra atburða sem nú hafa átt sér stað. Ég hefði að vísu talið nauðsynlegt og æskilegt að þessi breyting hefði átt sér stað nú þegar en á það hefur ekki verið fallist. Ég get að sumu leyti skilið að það hefur ekki unnist tími til að undirbúa það nægilega vel vegna þess hraða sem var á málinu og það hafði ekki fengið æskilegan undirbúning að mínu mati. En ég tel hins vegar mikilvægt að nefndarmenn skuli vera sammála um það og hæstv. viðskrh. skuli taka undir það að þessi breyting eigi sér stað.
    Að því er varðar 5. gr. frv. þá tel ég ekki eðlilegt að opna svo víðtæka heimild til að lána úr Tryggingarsjóði sparisjóða og get því ekki stutt þá grein. Ég hefði talið eðlilegt að heimila það að lána 1 milljarð kr., eins og gert er ráð fyrir í þessum aðgerðum, en það hefur komið fram í umfjöllun nefndarinnar í þessu máli að ekkert liggur fyrir af einu eða öðru tagi um að það kunni að vera nauðsynlegt að lána öðrum bönkum fjármagn úr þessum sjóði. Það hefur verið staðfest að eiginfjárstaða Búnaðarbanka og Íslandsbanka er traust. Þessir bankar eru báðir með yfir 10% eigið fé samkvæmt BIS-reglum, samkvæmt þeim ársreikningum sem liggja fyrir frá þessum bönkum. Er því ekki hægt að álykta annað en að fjárhagsstaða þessara banka sé þokkalega traust miðað við þær aðstæður sem nú eru uppi. Hitt er svo annað mál að auðvitað getur staða bankakerfisins breyst skyndilega í ljósi atburða í efnahagslífinu. Og ef ekki tekst að koma traustari fótum undir íslenskt atvinnulíf en nú er þá getur vissulega orðið þar mikil breyting á. Þess vegna er það að sjálfsögðu mikilvægasta verkefni stjórnvalda og allra landsmanna að treysta stöðu atvinnulífsins sem er jú undirstaða efnahagslífs okkar.
    Það hefur hins vegar komið fram að það sé ekki gott að draga þetta til baka vegna þess að í þessu felist yfirlýsing ríkisstjórnar um það að hún ætli sér að standa við bakið á íslenska bankakerfinu. Það má vel vera að nokkuð sé til í þeim málflutningi en ég er ánægður með að það skuli vera um það samstaða í nefndinni að það sé nauðsynlegt --- eða eins og það er orðað hér, með leyfi forseta: ,,Meiri hluti nefndarinnar telur að ef til frekari lánveitinga kemur í samræmi við 5. gr. frv. sé eðlilegt að hafa samráð um það við efh.- og viðskn.`` Ég túlka þetta orðalag þannig og vildi fá staðfestingu hæstv. viðskrh. á því að ef til þess kæmi, sem við skulum vona að ekki verði, þá verði haft samráð um það við efh.- og viðskn.
    Ég held að það sé alveg ljóst að ef til einhverra slíkra atburða kemur þá er það svo stórt mál að það verður fjallað um það með einum eða öðrum hætti á Alþingi og í þjóðfélaginu. Ég tel að það sé öllum fyrir bestu, bæði viðkomandi bankastofnunum og því trausti sem þarf að vera á getu okkar út á við til að greiða af lánum, að slík mál séu rædd í efh.- og viðskn. áður en endanleg ákvörðun er tekin. Það er mikilvægt vegna umræðunnar að þeir sem þurfa og munu taka þátt í henni séu undirbúnir með þeim hætti og geti lagt á ráðin í þeim efnum. Ég tek undir það sem formaður nefndarinnar sagði í þessu sambandi. Þegar það var t.d. ákveðið að veita Landsbanka Íslands 1.250 millj. kr. víkjandi lán var það ekki upplýst áður til efh.- og viðskn. sem varð til þess að skapa titring í sambandi við það mál vegna viðbragða formanns nefndarinnar sem hefði verið hægt að koma í veg fyrir ef samráð hefði verið haft um málið. Ég vænti þess að hæstv. viðskrh. staðfesti þetta mál á eftir.
    6. gr. frv. tel ég í reynd að sé óþörf af þeirri einföldu ástæðu að það eru nægar heimildir í lögum að því er varðar eftirlit með innlánsstofnunum. Bankaeftirlitið hefur miklar skyldur samkvæmt lögum til að hafa eftirlit með þessum stofnunum. Þeim er skylt að hafa sérstaka endurskoðendur til að fara yfir reikninga sína og hafa eftirlit með allri starfsemi. Þessir endurskoðendur eru fagmenn sem eru óháðir viðkomandi stofnunum og ætti það að vera nægilegt. Þar fyrir utan, sem er að sjálfsögðu aðalatriðið, hafa viðskiptabankarnir bankaráð sem hafa miklar eftirlitsskyldur. Það er mikilvægt að allir þessir aðilar hafi skýra eftirlitsábyrgð og það verði ekki dregið úr henni með einum eða öðrum hætti með því að skipa nýja eftirlitsaðila. Það er að mínu mati nauðsynlegt að það sé alveg skýrt að stjórnendur bankanna bera ábyrgð á rekstri þeirra og þeir eftirlitsaðilar sem nú starfa þar haldi þeirri ábyrgð sem þeir hafa. Með því að skipa nýja aðila í þessu skyni er verið að trufla þá ábyrgð og þær skyldur sem núverandi aðilar hafa og getur slíkt verið mjög skaðlegt.
    Að mínu mati hefði verið best að 6. gr. félli niður enda gjörsamlega óþörf. En það hefur verið sett í nál. meiri hluta efh.- og viðskn. að það sé óþarft að skipa nýja eftirlitsaðila og hef ég litið svo á að það sé ekki ætlunin hæstv. ríkisstjórnar að gera það. Ég held að það sé líka mjög óheppilegt að ríkisstjórn á

hverjum tíma blandi sér um of í rekstur bankastofnana því ekki er vitað hvar slíkt getur endað. Ég vænti þess að hæstv. viðskrh. staðfesti líka að það sé ekki ætlunin.
    Virðulegur forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa lengra mál um þetta annars mikilvæga frv. sem ég tel best að koma frá Alþingi sem allra fyrst. Því vil ég ekki fara allt of ítarlega út í málið. Ég tel jafnframt mikilvægt að nú hefur skapast meiri vissa um framtíð Landsbankans því það hefur verið staðfest af hæstv. forsrh. að ekki sé ætlunin að breyta stjórnarformi hans eða breyta honum í hlutafélag. Það hefur líka skapað mikla óvissu í umræðunni að undanförnu því það er vitað mál að með slíkri breytingu ber ríkissjóður væntanlega ekki lengur ábyrgð á skuldbindingum bankans.
    Ég er sammála því að það er ekki tilefni til þess nú, miðað við þær aðstæður sem eru í íslensku efnahagslífi, að ræða slíkt því að það hlýtur jafnframt að skapa óvissu og draga úr trausti utanaðkomandi aðila á bankanum. Það er mjög óheppilegt að slík umræða sé í gangi um langan tíma. Þess vegna fagna ég því að þarna hefur verið skýrt kveðið á um og lít svo á að þeim áformum hafi nú verið frestað.
    Ég vil lýsa því yfir fyrir hönd fulltrúa Framsfl. í nefndinni að við munum ekki flytja sérstakar brtt. við frv. þrátt fyrir gagnrýni okkar á það. Við munum hins vegar sitja hjá við atkvæðagreiðslu um nokkrar greinar í frv. og vísa til þeirrar gagnrýni sem ég hef hér sett fram. En í ljósi þeirra yfirlýsinga sem standa í nál. meiri hluta efh.- og viðskn. og í trausti þess að við þær verði staðið munum við styðja málið heild sinni við endanlega afgreiðslu þess á Alþingi.