Eiginfjárstaða innlánsstofnana

134. fundur
Föstudaginn 19. mars 1993, kl. 12:47:59 (6262)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegur forseti. Eins og kannski hefur sést á þunnskipuðum þingsalnum undanfarnar mínútur eða klukkutíma þá hlýtur það að vera mat manna hér að í þessu máli hafi allt verið sagt sem segja þarf í bili. Út af fyrir sig get ég tekið undir það, þ.e. í bili. Þetta mál á væntanlega eftir að fá meiri umræðu síðar.
    Ég gat þó ekki látið hjá líða að koma aðeins í pontu áður en umræðu um málið lýkur til að lýsa yfir þeirri skoðun minni að ég tel að það sé verulega ámælisvert hvernig að aðgerðinni allri saman var staðið af hálfu þeirra ráðherra sem héldu um þetta mál. Gamalt máltæki segir: Veldur hver er á heldur. Þess vegna finnst mér mjög sérkennilegt þegar þessir sömu ráðherrar koma jafnvel upp og býsnast yfir fjölmiðlafárinu sem hefur verið í kringum þetta mál allt saman. Því hafi einhver þyrlað upp moldviðri og fjölmiðlafári þá eru það auðvitað ráðherrarnir. Það er óafsakanleg vanþekking á fjölmiðlum, vil ég segja, hafi menn ekki séð það fyrir að fjölmiðlamenn fengju, eins og maður segir ,,blod på tanden`` þegar taktur væri sleginn með þeim hætti sem ríkisstjórnin gerði á þriðjudaginn. Við skynjuðum það öll í þingsalnum þó við værum bara óbreyttir fótgönguliðar á þingi að eitthvað mikið væri á döfinni þó við vissum svo sem ekki hvað það væri.
    Hafi írafárið skaðað íslenska bankakerfið og lánstraust þess og orðspor erlendis er við ríkisstjórnina að sakast og ekki við stjórnarandstöðuna. Mér finnst vægast sagt mjög ósmekklegt þegar ráðherrar koma og kalla stjórnarandstöðuna til ábyrgðar og hálft í hvoru fara fram á það við hana að hún segi ekki mjög mikið um þetta mál, með öðrum orðum gleypi stórt og þegi, þá finnst mér það ósmekklegt vegna þess að það var ekkert leitað til stjórnarandstöðunnar með málið. Hún var ekkert uppfrædd um það sem í vændum var. Að vísu hefur komið fram að talað var við einn mann um málð, Steingrím Hermannsson, þingmann Framsfl., en við aðra var ekki talað mér vitanlega og ekkert samráð haft um það að þetta væri á döfinni. Kannski er það til marks um það að okkur sé ekki sýndur sá trúnaður af ráðherrum en þá veit ég ekki af hverju við höfum til hans unnið. En eins og ég segi, einum þingmanni var sagt frá þessu og ég veit ekki hvers vegna, en gagnvegir forustumanna í stjórnmálum eru órannsakanlegir, ekki síst fyrir þá sem ekki hafa kynnst þeim með beinum hætti.
    En ég vil sem sagt að það komi fram að mér er algerlega fyrirmunað að skilja hvað ráðherrunum gekk til með þessu írafári öllu. Ég hélt eins og sjálfsagt fleiri að þeir væru með eitthvað stórt uppi í erminni, en mér sýnist svona eftir á að hyggja að ástæðan fyrir því hvernig þessi taktur var sleginn og hvernig trumbuslátturinn var hér sé kannski öðru fremur persónuleg fordild þeirra sem hlut áttu að máli.
    Ég efast ekki um frekar en aðrir sem hér hafa talað að það hafi verið nauðsynlegt að grípa til ákveðinna aðgerða gagnvart Landsbankanum. Staðan í efnahags- og atvinnumálum er mjög erfið og það hlýtur auðvitað að segja til sín í starfsemi þessa stóra banka sem er langstærsti lánveitandi til atvinnuveganna í landinu. Ég held hins vegar að það fari ekkert hjá því að maður hljóti að velta því fyrir sér af hverju er nauðsynlegt að hækka afskriftareikninginn svo mikið sem raun ber vitni og það hefur verið bent á það hér af Kristni H. Gunnarssyni, 5. þm. Vestf. að væntanlega þýðir þessi mikla hækkun afskriftareikningsins það að þeir sem það leggja til hafa vantrú á efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar, að þeir óttast þá framtíð sem bíður hér við næsta horn. Ef þetta er ekki vantrú á efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar og ótti við nánustu framtíð, þá hlýtur að felast í þessu eitthvert mat á fortíðinni, að einhverjar lánveitingar í fortíðinni séu með þeim hætti að líklegt sé að þær tapist. Það séu sem sagt einhverjar vafasamar lánveitingar sem búi þarna að baki.
    Ég held að stærsti hluti vandans eins og aðrir hafa bent á liggi í stöðunni í efnahags- og atvinnumálum, en það kann þó auðvitað fleira að koma til. Það er mín skoðun að það sé ástæða til þess að fara ofan í þetta mál og leita róta vandans, leita að ástæðum þess að að vissu leyti er bankinn kominn í ákveðna kreppu. Til þess að hægt sé að leita að rótum vandans þarf að mínu mati að skoða útlán bankans á umliðnum árum. Þegar ég segi þetta, þá felst ekki í því nokkurt vantraust eða nokkur yfirlýsing gagnvart núverandi bankastjórn bankans eða bankaráði, en mér finnst ekki óeðlilegt að þetta sé skoðað því að auðvitað er hér verið að grípa til sársaukafullrar aðgerðar. Það er verið að fara fram á það í rauninni og verið að ákveða það að skattgreiðendur leggi bankanum til hugsanlega tvo milljarða kr. og það er mjög líklegt að hagræðing sem gerð er krafa um í kjölfar þessara aðgerða leiði til uppsagnar starfsfólks í bankanum. Hér er um sársaukafulla aðgerð að ræða sem kemur við skattgreiðendur, kemur við fólk sem vinnur í þessum banka og mér finnst því eðlilegt í því sambandi að það sé skoðað hver sé rót vandans. Málið sé skoðað gagnrýnum augum. Og þetta hafa menn gert hér í kringum okkur. Við þekkjum bankakreppuna sem er í Noregi, Svíþjóð, Finnlandi. Bæði í Svíþjóð og Noregi hafa verið ríkisskipaðar nefndir sem hafa farið ofan í þau mál, þ.e. orsakir þessarar kreppu. Það var sagt frá þessu m.a. í Morgunblaðinu í gær. Þar var grein í viðskiptablaðinu um hrun norska bankakerfisins og þar kemur m.a. fram að norskur hagfræðingur, Preben Munthe, hafði verið formaður opinberrar nefndar sem skipuð var af norsku ríkisstjórninni í október 1991 til að meta umfang og orsakir bankakreppunnar. Auðvitað sjá menn þar eins og hér ákveðnar augljósar orsakir sem liggja m.a. í gjaldþrotum fyrirtækja. En þeir telja þó engu að síður að það þurfi að útskýra þetta frekar og eins og segir hér í Morgunblaðinu, með leyfi forseta:
    ,,Það sem er erfitt að útskýra er hins vegar hvað raunverulega orsakaði þær kringumstæður sem urðu mörgum stórum bönkum að falli. Spurningin snýst því um hvað orsakaði gjaldþrotabylgjuna, hvers vegna fasteignamarkaðurinn féll og hvers vegna bankakreppu síðustu ára hefur orðið svo vart í mörgum löndum.``
    Þetta er eitt af því sem þessi norska nefnd átti að skoða.
    Í Svíþjóð var skipuð slík nefnd og það er m.a. sagt frá því í Politiken þann 1. febr. sl. og það rataði inn á forsíðu Morgunblaðsins þann 4. febr. Það er sagt frá því að sænsku bankarnir hafi tapað 2.000 milljörðum ísl. kr. og þar af hafi a.m.k. 200 milljarðar tapast vegna fjárglæfra og misferils af ýmsum toga. Þarna er ekki um það að ræða að það séu fjárglæfrar eða misferli bankanna heldur lántakenda hjá bönkunum og þessir fjármunir hafi tapast. Og það segir hér í Politiken hvernig þetta hugsanlega stærsta fjárglæframál í sögu Svíþjóðar hefur farið með bankana.
    Það er m.a. talað um í tengslum við þetta að þau lán sem þarna sé um að ræða séu oft í einkaleyfum og ýmiss konar tilbúnum réttindum sem eiga sér ekki stoð í veruleikanum. Stundum eigi þessi lán sér þá skýringu að þar séu að baki veð í fasteign en verð fasteignarinnar hafi verið svo gersamlega ofmetið að ekki styðjist við neinn raunveruleika og það gæti vel verið að við þekktum einhver slík dæmi hér á landi. Mér finnst miklu ríkari ástæða til þess að skoða þetta heldur en að ræða það að setja tilsjónarmenn yfir bankana eins og hér hefur komið fram, a.m.k. hjá einhverjum stjórnarliðum. Í því fyndist mér felast að vissu leyti ákveðið vantraust á núv. bankaráð og bankastjórn bankans að skipa tilsjónarmenn, en mér finnst að bankaráðið núverandi og bankastjórnendur hafi sýnt vilja til þess að taka á málum í bankanum. Ég veit ekki betur en þeir hafi m.a. hert útlánareglur bankans í tvígang og því sé ekki ástæða til þess að sýna þeim neitt sérstakt vantraust.
    Þetta vil ég að komi hér fram og hefði nú gjarnan viljað fá einhver viðbrögð frá ráðherrum á það hvort þeir telji einhverja slíka nefndarskipan koma til álita.
    Varðandi frv. að öðru leyti vil ég segja það, sérstaklega hvað varðar 3. gr. frv., að mér finnst sú grein orka mjög tvímælis, þ.e. að ganga í það í hasti á einum degi að breyta hlutverki Tryggingarsjóðs viðskiptabanka eins og gert er ráð fyrir þarna. Það er verið að tala um ekki aðeins að taka á vanda Landsbankans heldur að breyta hlutverki sjóðsins varanlega. Með öðrum orðum, hann eigi ekki bara að tryggja skil á innlánsfé heldur líka að veita víkjandi lán. Þetta finnst mér orka mjög tvímælis og hefði átt að skoðast í tengslum við frv. um viðskiptabanka sem liggur fyrir í efh.- og viðskn. Þar með er ég ekki að segja að þetta komi ekki til álita og þessi leið sé ekki fær. En hún hefði átt að skoðast í tengslum við sjálft frv. um viðskiptabanka en ekki að gera þetta með þeim hætti sem hér er lagt til. Ég sé í rauninni enga ástæðu til þess. Engu að síður hefði verið hægt að taka sérstaklega á Landsbankanum í þessari grein og einskorða aðgerðina við Landsbankann. Ég mun því ekki samþykkja þessa grein eins og hún liggur hér fyrir og áskil mér rétt til þess að styðja þær brtt. sem fram hafa komið við þessa grein. Þar að auki hef ég líka fyrirvara við 5. og 6. gr. þessa frv. og fæ ekki séð að 6. gr. eigi í rauninni nokkurt erindi inn í þetta frv. En þetta vil ég segja sem mína skoðun í þessu máli og hef orð mín ekki fleiri.