Eiginfjárstaða innlánsstofnana

134. fundur
Föstudaginn 19. mars 1993, kl. 12:58:53 (6263)


     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Spurt var hvers vegna hefði aðeins verið rætt sérstaklega við einn þingmann stjórnarandstöðuflokkanna fyrir fund ríkisstjórnarinnar, hvað til stæði að gera á ríkisstjórnarfundi. Ástæðan er sú að sá hv. þm. sem rætt var við er í senn fyrrv. forsrh., formaður stærsta stjórnarandstöðuflokksins og bankaráðsmaður í bankanum. Því þótti ástæða til þess að ræða við hann og gera honum grein fyrir því hvað stæði til.
    Ég get verið sammála hv. þm. varðandi tilsjónarmenn. Ég tel og hef talið ástæðulaust að skipa bankanum tilsjónarmenn. Ég hef traust á yfirstjórn bankans og get tekið undir það með hv. þm. að það hefur af hálfu stjórnenda bankans á undanförnum missirum og árum margt verið gert til þess að styrkja stöðu hans og gera reksturinn skilvirkari þó að sjálfsagt megi betur gera í þeim efnum eins og til stendur að gera og vilji stendur til af hálfu bankans og af hálfu bankamálaráðherra.
    Varðandi hugmynd um nefndarskipun sambærilega því sem hv. þm. nefndi til, þá tel ég ekki ástæðu til þess og vek athygli á því að þeir aðilar sem hafa komið á fund efh.- og viðskn., eftir því sem ég best veit, og þeir sem hér hafa rætt af hálfu stjórnarliða og stjórnarandstöðu hafa flestir ef ekki allir tekið undir það að vandamál Landsbankans séu allt annars eðlis en hinn mikli bankavandi á Norðurlöndum og því sé ekki efni til þess að skipa nefnd af þessu tagi. Hv. þm. nefndi einnig aðferð ríkisstjórnarinnar varðandi meðferð málsins eins og sumir aðrir hafa gert. Það hefur verið reynt að sýna fram á að málatilbúnaður ríkisstjórnarinnar við að styrkja stöðu Landsbankans sé til þess fallinn að veikja hann. Það hefur hins vegar komið fram frá viðskiptaaðilum bankans að einmitt þessi málatilbúnaður sé til þess fallinn að styrkja hann. Menn segja að það sé ánægjulegt að frétta þá fyrst af vanda Landsbankans þegar fréttinni fylgir jafnframt að sá vandi hafi verið leystur.