Eiginfjárstaða innlánsstofnana

134. fundur
Föstudaginn 19. mars 1993, kl. 13:00:56 (6264)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Varðandi það að mönnum létti að heyra fyrst um vanda Landsbankans þegar þeir heyra um leið að vandi bankans hafi verið leystur, þá er það auðvitað vel skiljanlegt, og ég held að menn þurfi að taka á svona málum mjög fljótt og vel þegar slíkur vandi kemur upp eins og hjá Landsbankanum. En það þarf þó ekki að gera það með því írafári sem ríkisstjórnin gerði og með því að slá slíkar dramatískar trommur eins og hún gerði með þetta mál. Að öðru leyti ætla ég að láta það útrætt.
    Hvað vandamál íslenska bankakerfisins varðar og það kemur fram hjá forsrh. að það hafi allir sagt sem hafi komið á fund efh.- og viðskn. að það vandamál væri allt annars eðlis en vandamál bankanna á Norðurlöndum, þá hef ég svo sem heyrt þetta líka. En ég hef heyrt voðalega lítil rök fyrir þessu, ég hef heyrt afskaplega lítinn rökstuðning að sá vandi sé allt annars eðlis. Ég hygg að sá vandi sé að mörgu leyti sambærilegur og eigi sér að hluta til skýringar í efnahagsstjórn og ýmsum breytingum sem hafa átt sér stað á síðasta áratug og þess vegna finnst mér þetta dálítið þunn rök að hann sé allt annars eðlis því það fylgir ekkert kjöt á þeim beinum. --- [Fundarhlé.]