Eiginfjárstaða innlánsstofnana

134. fundur
Föstudaginn 19. mars 1993, kl. 13:44:17 (6267)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Þessi brtt. gengur út á það að í stað þess að heimila fjmrh. eins og gert er ráð fyrir í 5. gr. frv. að ábyrgjast lán allt að 3 milljöðrum kr., þá verði nú afgreidd heimild til handa ráðherra að taka lán eða ábyrgjast allt að 1 milljarði kr., þ.e. sú fjárhæð sem ákveðið hefur verið að ráðstafa til Landsbankans en veita ekki frekari heimildir að þessu sinni við afgreiðslu þessa frv. heldur verði þá leitað eftir því sérstaklega með sjálfstæðri lagaheimild á Alþingi ef til þurfi að koma frekari aðgerðir til að leggja bönkum í landinu fé. Það er okkar eindregin skoðun að það sé óeðlilegt að afgreiða opna heimild af þessu tagi eins og 5. gr. frv. gerir ráð fyrir. Við leggjum því til með þessari brtt. að upphæðin nú takmarkist við þá fjárhæð sem ákveðið hefur verið að gangi til Landbanka Íslands, sem sagt 1 milljarður kr. Ég segi já, hæstv. forseti.