Eiginfjárstaða innlánsstofnana

135. fundur
Föstudaginn 19. mars 1993, kl. 14:24:26 (6274)

     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ferill þessa hæstv. bankamálaráðherra er að verða alveg með eindæmum. Það hefur verið rakið á Alþingi að undanförnu hvernig ráðherrann hefur reynst fara með rangt mál hvað eftir annað. Nú er hann kominn í deilur við bankastjóra Landsbankans um sannleiksgildi yfirlýsinga bankastjóranna hvað snertir fund með ráðherranum. Ég las hér upp yfirlýsingar hæstv. forsrh. og bankastjóra Seðlabankans og ég spurði ráðherrann þeirrar einföldu spurningar: Ætlar hann að leggja fram frv. á þessu þingi um að breyta sama Landsbanka og hér á að fara að ríkisstyrkja um nokkra milljarða í hlutafélag? Hæstv. ráðherra svaraði því engu. Hann fór annars vegar með almenna yfirlýsingu um stefnu ríkisstjórnarinnar og síðan um það að í fyllingu tímans kæmi það í ljós o.s. frv. þegar guði almáttugi þóknast að birta þjóðinni vilja sinn. Getur hæstv. viðskrh. Jón Sigurðsson séð að það þjónar hagsmunum íslenska bankakerfisins að hann sé maður til þess að viðurkenna að þessir atburðir hafi gert áform hans um lagasetningu á Alþingi um það að breyta Búnaðarbankanum og Landsbankanum í hlutafélag á þessu þingi að engu? Ef ráðherrann svarar því ekki alveg skýrt þá blasir óvissan áfram við. Ég spurði hann síðan að því hvort hann væri sammála því sem fjmrh. hefði sagt opinberlega á þessu ári að ekki sé að reikna með sölu hlutabréfa í Búnaðarbankanum og Landsbankanum. Ráðherrann treysti sér ekki heldur til þess að svara því. Er það nú framkoma við þingið hjá ráðherra sem er að biðja um að síðdegis á föstudegi sé samþykkt frv. þar sem ríkisvæðing Landsbankans er aukin stórkostlega með milljörðum í ríkisstyrk til Landsbankans, þá er ráðherrann ekki reiðubúinn að svara jafneinföldum spurningum og hér hefur verið beint til hans.