Eiginfjárstaða innlánsstofnana

135. fundur
Föstudaginn 19. mars 1993, kl. 14:26:38 (6275)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Enn hlýt ég að benda á að hér er rætt um annað mál en það sem er á dagskrá. En vegna þess að hv. 8. þm. Reykn. hélt því fram að á einhvern hátt bæri á milli um þá stefnu sem kynnt væri af hæstv. forsrh. og þeim sem hér stendur vil ég leyfa mér að benda á að í því viðtali í Morgunblaðinu sem hv. þm. vitnaði til segir orðrétt eftir forsrh., með leyfi hæstv. forseta: ,,Ég held að menn sjái í hendi sinni að það er ekki rétti tíminn til að einkavæða bankana í bili. Á hinn bóginn hefði getað verið kostur að bankinn væri hlutafélag þótt ríkið hefði átt hann.`` Þetta er meðal þess sem kom fram í viðtalinu við hæstv. forsrh. Hann segir nákvæmlega það sama sem ég sagði áðan. Auðvitað sér það hver maður að þetta er ekki tíminn til þess að selja þessar eignir og ýmsar aðrar reyndar líka. En formið á bönkunum er áfram viðfangsefni ríkisstjórnarinnar. Hún ætlar sér að breyta þeim í hlutafélög. Hvenær tíminn er réttur til þess kemur síðar í ljós, m.a. vegna þess óhjákvæmilega og vandaða undirbúnings sem að því þarf að hafa.