Eiginfjárstaða innlánsstofnana

135. fundur
Föstudaginn 19. mars 1993, kl. 14:41:14 (6281)

     Halldór Ásgrímsson :
    Virðulegur forseti. Ég lít nú svo á að það liggi alveg ljóst fyrir að ekki standi til að breyta rekstrarformi ríkisbankanna nú á næstunni. Jafnvel þótt hæstv. viðskrh. vilji ekki svara því beint, þá heyrist mér það liggja í loftinu að það standi ekki til og það er alveg ljóst að ekkert slíkt frv. getur fengið afgreiðslu á þeim stutta tíma sem eftir er.
    En ég vildi aðeins gera að umræðuefni það sjónarmið sem hér hefur komið fram varðandi það fjármagn sem nú gengur til Landsbankans, að með því sé verið að skattleggja almenning í landinu. Ég tel að það sé röng framsetning. Ríkissjóður Íslands á Landsbanka Íslands og það er verulegt eigið fé sem ríkissjóður á í Landsbankanum og það hlýtur að vera skylda ríkissjóðs sem eiganda þessa banka að sjá til þess að þessar eignir glatist ekki. Það hlýtur jafnframt að vera skylda ríkissjóðs að standa við bakið á þessum mikilvægasta banka landsmanna sem er bakhjarl stærsta hluta atvinnulífsins sem flestir Íslendingar hafa vinnu hjá. Þess vegna tel ég það vera rangt þegar því er haldið fram að það sé verið að skattleggja almenning í landinu með þessum hætti. Það er þvert á móti verið að koma í veg fyrir það að eignir ríkisins glatist í þessum banka og ég vil leggja á það áherslu að það hlýtur að vera skylda bankastjórnar og bankaráðs að gera allt sem í þeirra valdi stendur til þess að sem minnst tapist af eignum bankans.
    Jafnvel þótt útlán séu nú afskrifuð með þeim hætti sem er gert ráð fyrir, þá er ekki þar með sagt að þessar fjárhæðir séu tapaðar. Það er einfaldlega ekki komið í ljós. Hér er verið að meta áhættu sem er fyrir hendi og ég legg á það áherslu að það verði allt gert og bankinn fái þau tæki sem hann þarf á að halda til þess að koma í veg fyrir það að þessi útlán tapist nema þá að sem minnstu leyti. Hitt er svo annað mál að auðvitað skiptir hér öllu meginmáli að ríkisstjórnin standi þannig að efnahagsmálum þjóðarinnar og breyti þar ýmsum áherslum til þess að koma í veg fyrir það að bankinn glati meira fé og atvinnuleysið fari enn vaxandi. Það er að sjálfsögðu meginmál sem ég ætla ekki að gera að umtalsefni hér, en vegna þeirrar umræðu sem hefur verið um það að hér sé verið að skattleggja almenning vildi ég koma þessum sjónarmiðum á framfæri og þeim meginástæðum fyrir því að við í þingflokki Framsfl. töldum rétt að greiða fyrir framgangi þessa máls í því skyni að standa sem best við bakið á atvinnulífi landsmanna og koma í veg fyrir það að ríkissjóður Íslands og þar með almenningur glati miklum eignum sem felast í eign ríkisins á Landsbanka Íslands.