Eiginfjárstaða innlánsstofnana

135. fundur
Föstudaginn 19. mars 1993, kl. 14:58:05 (6289)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) (andsvar) :
    Frú forseti. Því miður er hér mikill misskilningur á ferð. Það er rétt að það hefur komið fram það álit af hálfu endurskoðenda bankans og bankaeftirlits og ríkisendurskoðanda að nauðsynlegt sé að í árslok 1992 hafi verið lagt til hliðar á afskriftareikning útlána fjárhæðin 4.500 millj. kr. Sömu aðilar benda á að öruggara væri og varkárara og æskilegt að stöðutalan á afskriftareikningi útlána væri enn hærri eða 5.800 millj. kr. Þessar tvær tölur má alls ekki leggja saman. Eins og hér hefur ítrekað komið fram, ekki síst af hálfu þeirra sem hafa talað með fyrirvara um það mál sem hér er til umræðu, þá er afskriftareikningur útlána ekki glatað fé. Þetta eru varúðarráðstafanir og alls ekki hægt að segja að allt þetta fé sé tapað, því fer víðs fjarri.