Eiginfjárstaða innlánsstofnana

135. fundur
Föstudaginn 19. mars 1993, kl. 15:07:12 (6293)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) (andsvar) :
    Frú forseti. Þetta mál er alls ekki í lausu lofti. En það er hins vegar ekki verkefni ríkisstjórnarinnar að fjalla um það með hvaða hætti reikningsskil Landsbankans eru gerð upp. Það er í höndum sérfróðra manna.
    Með greinargerðum sem fram hafa verið lagðar í þinginu og hv. efh.- og viðskn., frá starfsmönnum bankaeftirlits og endurskoðendum Landsbankans hefur okkur verið gerð glögg grein fyrir því hvernig þetta mál liggur fyrir. En endanleg niðurstaða ræðst ekki fyrr en heimildirnar hafa verið nýttar sem senn verður gert. Þá verður tekin ákvörðun um hvernig með verður farið og það mun ég alls ekki segja fyrir um hér í nákvæmum greinum. Eins og kom mjög greinilega fram hjá hv. 1. þm. Austurl., fyrrum háskólakennara í reikningsskilum, þá mun hver maður sem les reikningana geta séð hvort sem þetta er fært í gegnum rekstur eða höfuðstól, hvað hér gerðist.
    En ég endurtek að lokum það sem hér hefur oft komið fram að þessi stuðningur við Landsbankann, sem nú er veittur af Alþingi, er til þess að verja eign almennings í bankanum og tryggja stöðu hans. Það mun takast. Þær umræður sem hér fara nú fram eru í raun og veru um formsatriði ekki efnisatriði.