Eiginfjárstaða innlánsstofnana

135. fundur
Föstudaginn 19. mars 1993, kl. 15:08:43 (6294)


     Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon) :
    Virðulegi forseti. Ég get ekki alveg skilið við þetta svona, hæstv. forseti, eins og mér virðist hæstv. viðskrh. vilja gera. Ég held að málið sé ekki svona einfalt. Var það ekki þannig að ástæðan sem tilgreind var sérstaklega af hálfu hæstv. ríkisstjórnar var sú að það hefði ekki verið hægt að undirrita ársreikninga bankans fyrir árið 1992? Því hefur jafnvel verið haldið fram að ríkisendurskoðandi og endurskoðandi bankans hafi neitað að undirrita ársreikninga bankans vegna þess að ekki hafði verið lagt nóg í afskriftareikning. En nú er viðskrh. í raun og veru að segja að það geti alveg eins komið til álita að reikningum bankans verði lokað eins og bankastjórn og bankaráð höfðu reiknað með að þeir yrðu eftir fund sinn 25. febr. sl. og að þessi aðgerð verði þá öll færð í gegnum efnahagsreikning bankans á árinu 1993.
    Ég tet tekið undir það sjónarmið viðskrh. að auðvitað á hann ekki né ríkisstjórn að taka fram fyrir hendur á bankanum á meðan hann á að heita sjálfstæð stofnun. Maður spyr sig að vísu: Hvað er eftir

af því sjálfstæði eins og málin horfa? En meðan svo á að heita þá er það auðvitað þeirra hlutverk að ganga frá reikningunum og senda viðskrh. þá til staðfestingar. En að það atriði skuli nú hanga í lausu lofti og viðskrh. ekki geta svarað neinu til um það hvernig þessi aðgerð, sem ætlunin er að Alþingi heimili endanlega eftir nokkrar mínútur, verði svo færð inn í reikninga bankans er alveg stórfurðulegt. Þá skiptir aftur máli, hæstv. viðskrh., hversu mætur sem hv. 1. þm. Austurl. er sem mér virðist vera orðinn hálfgerður aðstoðarviðskiptaráðherra hér í dag, sú aðferð sem farin er vegna þess að það er grundvallarmunur á þeim varðandi uppsetningu rekstrarreiknings bankans. Það er það sem ég hef ég margsinnis verið að reyna að koma til skila í umræðunum. Það er það sem mér skilst að hafi verið ástæða þess að á hinum Norðurlöndunum var valin önnur leið að mestu leyti í flestum tilvikum, sú leið að taka aðstoðina í gegnum stofnun sérstakra sjóða sem yfirtóku hluta af skuldbindingum bankanna sem leiddi síðan til þess að bankarnir þurftu ekki að sýna þá hluti með sama hætti í ársreikningum sínum og ella horfði til.
    Þetta er auðvitað mjög sérkennilegt, hæstv. forseti, að undir lok umræðunnar skuli m.a. lausir þræðir af þessu tagi skjótast fram í dagsljósið. Og verður auðvitað næsta kostuleg niðurstaðan ef það verður svo ofan á að þessir aðilar staðfesta reikningana eins og þeir lágu fyrir 25. febr. og allt þetta írafár og óðagot mun þá ekki birtast í reikningum bankans fyrr en eftir u.þ.b. ár þegar árið 1993 verður gert upp. Það verður auðvitað með meiri ólíkindunum.
    Ég vil svo segja einnig, hæstv. forseti, af því að hæstv. viðskrh. hefur talið að menn væru að reyna að blanda hér einhverjum óskyldum atriðum inn í umræðuna ef menn hafa nefnt álitamál um eignarform eða rekstrarform bankanna, spurningar um einkavæðingu og annað því um líkt og/eða afkomu sjávarútvegsins. Auðvitað eru það fráleitt óskyld mál. Ég ætla að sjálfsögðu ekki að lengja þessa umræðu með því að taka á því lotu að ræða t.d. stöðu í sjávarútveginum, en auðvitað liggur það til grundvallar í málinu. Og það er hárrétt sem bent hefur verið á að þessi aðstoð við Landsbanka Íslands, þó mönnum þyki hún stór og upphæðirnar miklar, er hverfandi þegar borið er saman við þann vanda t.d. sjávarútvegsins sem menn standa frammi fyrir.
    Á ársfundi samtaka fiskvinnslustöðva á Akranesi sl. haust ræddi fráfarandi formaður Vinnuveitendasambands Íslands og núv. formaður þeirra sömu samtaka, samtaka fiskvinnslustöðva ef ég man rétt, Einar Oddur, um þessa skuldastöðu og þennan vanda sjávarútvegsins. Hans mat var það að 30 milljarðar kr. væru í raun tapað fé í sjávarútvegi á Íslandi. 30 milljarðar kr. af þeim 100 milljarða brúttóskuldum sem sjávarútvegurinn er með á herðunum. Þá verða jafnvel þessar upphæðir litlar. Þá mun það lítið stoða að setja svona fjárhæðir í Landsbankann. Ef rekstrartap sjávarútvegsins á áfram að vera 8--10% þá er það tap upp á 6--7 milljarða á ári miðað við 70--80 milljarða veltu sjávarútvegsins. Þá mun þetta ekki duga lengi satt best að segja, heldur verka eins og deyfilyf eða plástur og ómögulegt að segja hver staðan verður orðin hjá Landsbanka Íslands sem og auðvitað landsmönnum öllum í því sambandi að hálfu ári eða ári liðnu.
    Auðvitað þýðir því ekki fyrir hæstv. ráðherra að ætla að vísa því frá að þetta sé nefnt í sömu andrá. Af tillitsemi við aðstæður í þessu máli hafa menn valið að greiða götu frv. og tryggja að það geti orðið að lögum hér í dag. En það þýðir ekki, a.m.k. ekki af minni hálfu, að það sé ekki fullt tilefni til þess að ræða það sem er hinn undirliggjandi vandi málsins, þ.e. aðstæður í efnahags- og atvinnulífi landsmanna. Það er ekki síst bullandi taprekstur sjávarútvegsins, óheyrilegar skuldir og háir vextir sem gerir allt saman að verkum að það er víðs fjarri að sjávarútvegurinn geti staðið undir þeim skuldum sem á herðum hans hvíla. Það er auðvitað mál sem mun ekki síst hafa áhrif á það hvernig Landsbankanum vegnar í framhaldinu.
    Vandi bankakerfisins á Íslandi hefur verið nokkuð sérstakur og hann hefur verið með allt öðrum hætti og reyndar sem betur fer minni að vöxtum en á hinum Norðurlöndunum, m.a. vegna þess að vandinn þar hefur fyrst og fremst skapast af lækkandi fasteignaverði og því að veð bankanna í fasteignum, bæði í atvinnuhúsnæði og einkahúsnæði, hafa hrunið. Við höfum sem betur fer ekki staðið frammi fyrir slíku, a.m.k. ekki enn á Íslandi. Það sem við höfum verið að horfa til og vandanum hefur valdið fram að þessu hjá okkur er afkoman í sjávarútveginum, töpin þar og áföllin þar, a.m.k. hvað horfurnar snertir fyrir Landsbankann. En hitt er alveg ljóst að ef sjávarútvegurinn fer á hnén þá fer fleira á hnén á Íslandi. Þá er stutt í það að sjálfur ,,gullmyntfótur`` útlánakerfisins í landinu, fasteignirnar, lækki líka í verði og guð hjálpi okkur þá. Þá er ég hræddur um að fleiri bankar en Landsbankinn komi til með að lenda í erfiðleikum. Þá er ég hræddur um að tryggingar húsnæðislánasjóðanna og lífeyrissjóðanna færu að rýrna ef við stæðum frammi fyrir fasteignaverðhruni af svipuðu tagi og gerst hefur á hinum Norðurlöndunum.
    En það er ekki hægt lengur að segja að þessar afskriftir Landsbankans og reyndar hinna bankanna séu eitthvert smámál. Það er ekki hægt. Niðurstöðutölur í reikningum Landsbankans eru, ef ég man rétt, rétt um 100 millj. kr., þ.e. þegar lögð eru saman heildarútlán bankans. Afskriftir upp á 8, 9 eða 10 milljarða kr. á tveim til þremur árum eru þar með ekki lengur neitt smámál. Jafnvel borið saman við veltu stærsta banka þjóðarinnar. Þær eru það ekki. Og 1.500 millj. kr. afskriftir Íslandsbanka á sl. ári eru það ekki heldur.
    Svona geta því hæstv. ráðherra og hæstv. ríkisstjórn ekki afgreitt þetta mál. En mér sýnist alveg ljóst, hæstv. forseti, að vegna þess að samkomulag er um að greiða götu þessa máls í dag og taka ekki tíma í annars nauðsynlegar umræður um hinn undirliggjandi vanda þá verðum við að fá þann tíma fljótlega, þ.e. að óhjákvæmilegt sé í framhaldi af afgreiðslu þessa máls og því að þessum aðgerðum gagnvart Landsbankanum lýkur að á Alþingi skapist innan tíðar svigrúm til að ræða stöðuna í efnahags- og atvinnumálunum og þá ekki síst bullandi rekstrartap sjávarútvegsins sem er og verður þá áframhaldandi ef ekkert verður að gert og mun auðvitað leiða til þess að Landsbankinn lendir innan tíðar á nýjan leik í erfiðleikum.