Eiginfjárstaða innlánsstofnana

135. fundur
Föstudaginn 19. mars 1993, kl. 15:17:59 (6295)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) (andsvar) :
    Frú forseti. Enn á ný vil ég skýra það hvers vegna ekki er hægt á þessu stigi máls að svara því nákvæmlega hvernig þessar aðgerðir munu birtast í reikningum Landsbankans. Ástæðan er einföld. Eins og þingmenn vita eru þetta heimildarlög, heimildir til að bæta eiginfjárstöðuna að ákveðnu marki, heimildir til að veita víkjandi lán, heimildir til að veita ábyrgðir. Um hvort tveggja, bein framlög til bankans og víkjandi lán, þarf að gera samkomulag milli ríkissjóðs, ríkisins, annars vegar og Landsbankans hins vegar. Fyrr en slíkur samningur hefur verið gerður er ekki hægt að setja þetta nákvæmlega niður í tölur einmitt af því, eins og hefur komið fram í máli m.a. hv. 4. þm. Norðurl. e., að það skiptir máli hvaða leiðir verða farnar og eins og margoft hefur komið fram þá veitir m.a. 1. gr. rúmt svigrúm til þess að velja þar heppilegustu leið. Þetta er fyrri ástæðan.
    Síðari ástæðan er svo að sjálfsögðu sú að viðskrh. hefur það hlutverk lögum samkvæmt að staðfesta reikninga Landsbankans. Þetta er ekki reikningsskilafundur þess góða banka. Stjórnendur Landsbankans munu leggja reikningsskilin fram fyrir ráðherrann þegar bankinn hefur gengið frá sínum reikningum. Ég fullvissa þingmanninn um það að Alþingi hefur fengið fullnægjandi greinargerð fyrir efnisatriðum og undirstöðugreinum þessa máls en það er ekki hægt að ljúka því með þeim hætti eins og mér virtist hv. þm. vera að óska. En ég get fullvissað hann um að í þessu máli eru engir lausir þræðir. Ég sé að Alþingi ætlar að taka röggsamlega á þessu máli og ljúka því þannig að enginn geti dregið í efa traust Landsbanka Íslands.