Eiginfjárstaða innlánsstofnana

135. fundur
Föstudaginn 19. mars 1993, kl. 15:19:51 (6296)

     Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég tek viljann fyrir verkið hjá hæstv. viðskrh. og ég skal ekki krefja hann frekari svara hér. Það er alveg ljóst að staða hæstv. viðskrh. í þessu efni er ekki góð. Það eru vissulega ákveðin efnisleg rök fyrir því sem hann hefur fært fram en ég hygg reyndar að aðalástæðan sé sú, sem alltaf er að sannast betur og betur í gegnum umræður um þetta mál, að þetta var auðvitað fyrirburafæðing. Þetta óðagot og allt þetta bráðræði leiddi það af sér að málið var ekki nægjanlega þroskað, m.a. ekki í gegnum eðlileg samskipti og eðlilegt samráð viðskrh., bankaeftirlitsins og Landsbankans, enda ljóst að á þeim bæ töldu menn sig hafa nokkra daga til stefnu til að ganga frá slíkum hlutum.
    Auðvitað væri betra, hæstv. viðskrh., ef ráðherrann hefði getað upplýst í umræðum að málið væri svo vandlega undirbúið og þaulrætt í samskiptum þessara aðila að fyrir lægi samkomulag um það hvernig þessu yrði fyrir komið og með þetta farið. Það gerir það ekki. Það er nánast ekki búið að ganga frá samkomulagi um nokkurn skapaðan hlut af útfærslu þessa máls. Ég hef ekki einu sinni orðið var við að það væri komið samkomulag milli viðskrh. og fjmrh. um þá þætti sem þeir þurfa að leysa í sínum samskiptum, hvað þá annað.
    Mín tilfinning er sú að þessu máli hafi verið hraðað meira en hæstv. viðskrh. vildi og honum sé þess vegna tæplega sjálfrátt í því að svara eins og hugur hans stendur til. Og ég, eins og ég segi, reyni að skilja þær aðstæður. Ég tek viljann fyrir verkið. Hæstv. viðskrh. hefur ekki forsendur til að veita frekari svör en hann hefur reynt.