Fullgilding samnings um fríverslun milli Íslands og Færeyja

135. fundur
Föstudaginn 19. mars 1993, kl. 15:25:55 (6298)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir fríverslunarsamningi við Færeyjar en samningur þessi var undirritaður í Reykjavík í sl. ágústmánuði.
    Greiður aðgangur að Færeyjamarkaði getur orðið kærkomin viðbót við heimamarkað fjölmargra íslenskra fyrirtækja. Við það bætist að hefð hefur verið fyrir umtalsverðum útflutningi ákveðinna landbúnaðarafurða til Færeyja. Það var því orðið tímabært að freista þess að koma viðskiptum okkar við þessa frændþjóð á traustan grundvöll.
    Eftir að samið hafði verið við helstu grannríki í Evrópu í byrjun áttunda áratugarins á grundvelli fríverslunar urðu Færeyingar út undan. Lengi vel kom þetta ekki að sök, Íslendingar veittu Færeyjum einhliða sömu fríðindi og EFTA-ríkjum. Þegar hins vegar Færeyjar gengu frá fríverslunarsamningi sínum við Evrópubandalagið tóku þeir á sig þá kvöð að taka upp tollskrá Evrópubandalagsins. Þetta hefði haft í för með sér verulega óhagstæð kjör fyrir íslensk fyrirtæki á Færeyjamarkaði meðan ekki hefðu náðst samningar við Færeyinga um samsvarandi fríðindi og við njótum á Evrópubandalagsmörkuðum.
    Þegar ný tollskrá gekk í gildi í Færeyjum var innheimtu tolla á íslenskum afurðum þess vegna frestað að beiðni íslenskra stjórnvalda og viðræður hófust um gerð fríverslunarsamnings. Í fyrstu var í meginatriðum stuðst við fríverslunarsamning Íslands og Evrópubandalagsins sem fyrirmynd enda er meginmál þess samnings efnislega nær samhljóða fríverslunarsamningi EB og Færeyja. Síðar var þó ákveðið að taka tillit til þeirrar þróunar sem orðið hefur, m.a. í fríverslunarsamningum þeim sem EFTA-ríkin hafa gengið frá við ýmis ríki við Miðjarðarhaf og í Austur-Evrópu. Var þá aukið við ákvæðum varðandi t.d. hugverkaréttindi opinber útboð og fleira. Enn fremur var verulegt samstarf um það milli Norðurlandanna fjögurra, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar, sem áttu í samningum við Færinga um svipað leyti, í þá átt að

samræma texta fríverslunarsamninganna eftir því sem kostur gafst.
    Samningur þessi tryggir fríverslun með iðnaðarvörur og jafnframt allar sjávarafurðir milli samningsaðila. Enn fremur taka báðir aðilar á sig samsvarandi skuldbindingar og tíðkast hafa innan EFTA um afnám ríkisstyrkja til sjávarútvegs, en þar fá Færeyingar þó aðlögunarfrest fram til loka árs 1994.
    Þrátt fyrir fríverslun með fisk verður Íslendingum þó áfram heimilt að beita útflutningstakmörkunum á fisk en skuldbinda sig til þess hins vegar að mismuna ekki Færeyingum og Evrópubandalagsríkjum að þessu leyti.
    Samhliða þessum samningum var gengið frá samningi í formi bréfaskipta um viðskipti með landbúnaðarvörur, þ.e. þær vörur sem falla undir tollflokka 1--25. Þar er tryggt tollfrelsi fyrir flestar vörur frá Íslandi til Færeyja, þó tilteknar mjólkur- og kjötafurðir undanþegnar.
    Þokkalega ríflegir tollkvótar eru þó veittir fyrir lambakjöt, fryst og ferskt, og unnar afurðir úr því og er þar miðað við þann útflutning sem tíðkast hefur undanfarin ár.
    Á móti skuldbindur Ísland sig til þess að láta tolla og aðra mismunun niður falla á vatni, gosvatni og færeyskum bjór en að öðru leyti er ekki opnað fyrir útflutning landbúnaðarafurða frá Færeyjum til Íslands.
    Ég á ekki von á því að mikill ágreiningur ríki á Alþingi Íslendinga um að æskilegt sé að efla viðskipti og tengsl við frændur vora og granna Færeyinga og vonast til þess að samningur þessi getið fengið skjóta afgreiðslu. Ég legg því til, virðulegi forseti, að málinu verði vísað að lokinni þessari umræðu til hv. utanrmn.