Dagskrá

135. fundur
Föstudaginn 19. mars 1993, kl. 15:44:09 (6307)

     Umhverfisráðherra (Eiður Guðnason) :
    Virðulegi forseti. Sú umræða sem hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, formaður Alþb. og starfandi formaður þingflokks Alþb. hafa sett á nú á þessu síðdegi er auðvitað alveg með ólíkindum. Í fyrsta lagi liggur það fyrir í prentaðri starfsskrá þingsins að það var gert ráð fyrir fundi á þessum föstudegi. Í öðru lagi liggur það fyrir í prentaðri starfsskrá þingsins, eins og forseti hefur lesið, að þegar þingfundir eru á föstudögum, hefjast þeir að jafnaði kl. 10.30. Í þriðja lagi hefur það legið fyrir í allan dag að þessar tvær skýrslur yrðu hér á dagskrá. Ef þingflokkur Alþb. hafði við það athugasemdir að gera þá átti auðvitað að gera það um leið og dagskránni var breytt, ekki þegar verið var að taka málin á dagskrá. Það er kannski ekki margt fleira um þetta að segja, en þessa framkomu, eftir að formaður Alþb. hefur haldið uppi löngum ræðuhöldum í allan dag að þarflitlu, að sumir mundu segja, hann leggst nú gegn því ásamt formanni þingflokks Albþ. að farið sé eftir prentaðri dagskrá og unnið sé áfram eins og eðlilegt hlýtur að teljast og þær skýrslur sem eru á dagskránni verði ræddar. Þessi framkoma er auðvitað með hreinum ólíkindum, en kannski ekki óvænt.