Hjúskaparlög

136. fundur
Mánudaginn 22. mars 1993, kl. 14:28:19 (6325)

     Frsm. meiri hluta allshn. (Sólveig Pétursdóttir) :
    Virðulegi forseti. Í tilefni af nál. minni hlutans og brtt. þá langar mig til þess að koma með nokkrar athugasemdir. Það er þó rétt að ítreka að í áliti minni hlutans er tekið fram að hann styður frv. í heild sinni. Það er einnig rétt að ýmsar umræður spunnust í allshn. meðan frv. var til meðferðar þar enda snertir það afar mikilvæga þætti í okkar þjóðfélagi. Þó komu nokkrar athugasemdir skýrt fram hjá sumum nefndarmönnum, svo sem að ekki mætti ganga of langt í því að setja lagafyrirmæli um ýmis þau atriði sem snerta einkalíf fólks. En það er einmitt haldið sömu meginstefnu í þessu frv. sem hér er til umræðu og er í núgildandi lögum sem hafa reynst vel þótt ýmis atriði séu gerð einfaldari og skýrari og ýmsar réttarbætur gerðar en sifjalaganefnd tók einnig tillit til allflestra athugasemda er fram komu um frv. á síðasta þingi. Þetta frv. er því afar vel unnið og vel staðið að undirbúningi þess.
    Allshn. fór einnig mjög vandlega yfir það og þakka ég nefndarmönnum samstarfið.
    Varðandi 40. gr. sem felur í sér mikilvægt nýmæli þá er einmitt verið að undirstrika það að ofbeldi eigi ekki rétt á sér í hjúskap. Hins vegar er erfitt að skilgreina hvaða tilvik geta fallið þar undir og er farin sú leið að settar eru fram vissar leiðbeiningareglur sem byggjast m.a. á lögfræðilegum hugtökum. Það er t.d. alþekkt í refsirétti að skilið er á milli meiri háttar líkamsárása og minni háttar og enda er þar mikill munur á viðurlögum. Ákvæði dönsku hjúskaparlaganna er hér m.a. haft að fyrirmynd. Það geta auðvitað komið upp einhver vandkvæði í hjúskap en hjónin geta náð sáttum síðar meir og þá er mikilvægt að hjónin hafi ekki tekið skyndiákvörðun og fengið lögskilnað strax. En það er að sjálfsögðu ekki verið að gefa það í skyn í frv. eða athugasemdum að ofbeldi sé líðanlegt í hjúskap svona almennt og yfirleitt. Auðvitað er ofbeldi alltaf alvarlegt í sjálfu sér. En það er heldur ekkert sem kemur í veg fyrir að hjón leiti eftir skilnaði ef um slíkt er að ræða.
    Ég legg áherslu á að þetta ákvæði sem hér er talað um að breyta í 40. gr. fjallar ekki um skilað í sjálfu sér að öðru leyti en því að ef slík tilvik koma upp þá sé hægt að biðja um lögskilnað strax, það þurfi ekki að bíða þennan ákveðna tíma að fá fyrst skilnað að borði og sæng eða fullnægja einhverjum öðrum skilyrðum til að fá lögskilað.
    Varðandi brtt. í 54. gr. um að skylt sé að skrá hjúskapareign hjóna eign beggja, þá er það að vísu svo, og það var rætt í nefndinni og enda kemur það fram í nál. meiri hlutans, að hjón geta verið betur sett ef þau eru t.d. bæði skráð sem þinglýstir eigendur að fasteign. En nú eru í frv. einmitt breytingar sem gera ráð fyrir því að skýrari kröfur verði gerðar um samþykki maka og hvernig tekið er á því. Hjón eiga í raun að vera jafn vel sett hvort sem annað eða bæði eru skráðir eigendur enda koma eignir allar til helmingaskipta ef af skilnaði verður. Með lögum frá 1923 um réttindi og skyldur hjóna var það markmiðið að skapa aukið svigrúm og frjálsræði, þ.e. fólk gæti verið nokkuð frjálst að sínum fjárhagslegu umsvifum. Núgildandi reglur byggjast á séreignakerfi alveg eins og er á Norðurlöndum. Sú brtt. minni hlutans sem hér er mælt fyrir mundi breyta þessu kerfi alveg um fjármál og eignir hjóna og væri andstætt heildarstefnu um þetta efni í norrænni löggjöf. Það má benda hér t.d. á athugasemdir á bls. 63--64 en þar segir, með leyfi virðulegs forseta: ,,Endurskoðun norrænna laga um fjármál hjóna hefur staðið síðan á sjötta áratugnum en síðustu fundir voru haldnir 1987. Norrænu sifjalaganefndirnar hafa lagt þar fram hugmyndir að breytingum og víðtækar umræður hafa farið fram um það efni. Reglur um fjármál fólks í óvígðri sambúð hafa einnig verið til meðferðar eins og áður greinir.`` Síðan segir: ,,Norðurlandaráð hefur sett fram óskir um að þess verði freistað eftir föngum að ná samstöðu meðal Norðurlandaþjóða um þær breytingar sem fyrirhugaðar eru á hjúskaparlöggjöf.``
    Þá segir: ,,Norrænu sifjalaganefndirnar hafa verið á einu máli um að ekki sé tímabært að hvika frá þeim megingrundvelli sem núgildandi lög um fjármál hjóna eru reist á.`` Það þyrfti sem sagt að athuga fjölmörg önnur ákvæði í löggjöf, fyrst og fremst á Íslandi en væntanlega yrði það athugað á Norðurlöndum líka og endurskoða þau ákvæði. En það sem skiptir e.t.v. einna mestu máli er það atriði að fólk sé nokkuð frjálst í sínum hjúskap og ekki sé hægt að setja lagafyrirmæli um alla þætti í einkalífi fólks. Meiri hluti nefndarinnar getur því ekki fallist á þessa brtt. en er sammála því að gæta verði þess að samþykkis maka verði aflað, t.d. ef um veðsetningu er að ræða en dómsmrh. hæstv. er einmitt ætlað í þessu frv. að setja reglur er taki af öll tvímæli um framkvæmd.
    Almennt hefur fólk haft trygga réttarstöðu eftir núgildandi lögum. Hér má t.d. benda á nýjan dóm frá Héraðsdómi Reykjavíkur, uppkveðnum þann 22. febr. sl. Þar voru hjón eigendur að skuldabréfum sem gefin voru út á nafn þeirra beggja. Eiginmaðurinn setti þessi bréf til banka að handveði. En bankinn gekk ekki sannanlega úr skugga um samþykki konunnar fyrir veðsetningunni. Hjónin skildu og leitaði konan eftir þessum bréfum. Þá kom þessi staðreynd í ljós og hún fór því í dómsmál þar sem hennar samþykkis hafði ekki verið aflað og vann það mál þannig að bankinn var dæmdur til að endurgreiða konunni hennar eignarhluta í skuldabréfunum. Þarna var um talsverðar fjárhæðir að ræða.
    Hæstv. forseti. Ég tel ekki ástæðu til þess að koma hér að frekari athugasemdum vegna ræðu hv. þm. Önnu Ólafsdóttur Björnsson en mörg þessara atriða er hún gerði hér að umtalsefni voru rædd sérstaklega í allshn. Þó má benda á 42. gr. frv. er gerð var hér að umræðuefni, um sáttaumleitan, þar sem það

hefur komið hér fram að hjónum ber ekki skylda núna að leita eftir sáttum ef þau eiga ekki börn undir 16 ára aldri. En að sjálfsögðu er lögð á það áhersla eins og kemur fram í nál. meiri hlutans að hjón eigi þess ávallt kost að það sé leitað um sættir með þeim. Ég vil sérstaklega geta þess að það kemur fram í lokamálsgrein 42. gr., þar segir: ,,Dóms- og kirkjumálaráðuneyti getur ákveðið í reglugerð að sáttaumleitan í stofnun um fjölskylduráðgjöf geti komið í stað sáttaumleitunar skv. þessari grein.`` Ég hef einnig upplýsingar um það að fjölskylduráðgjöf kirkjunnar hefur verið mjög önnum kafin í þessum málum og hefur gert góða hluti þar. En að öðru leyti þá þakka ég þessa ræðu hv. þm. og vona að hið háa Alþingi taki vel á þessu mikilvæga frumvarpi.