Kvennadeild Landspítalans

136. fundur
Mánudaginn 22. mars 1993, kl. 15:33:23 (6337)


     Lára Margrét Ragnarsdóttir :
    Hæstv. forseti. Að undanförnu hafa birst fréttir af ástandi því sem ríkir á kvennadeild Landspítalans. Þar hefur ástand fæðingardeildar, fæðingargangs og sængurkvennadeildar borið einna hæst. Fæðingum á kvennadeild hefur fjölgað mjög á undanförnum árum vegna fjölgunar fæðinga almennt, samdráttar og síðan lokunar á Fæðingarheimilinu við Eiríksgötu og enn fremur aukinnar áherslu á það öryggi sem fólk telur þjónustu kvennadeildarinnar veita.
    Þegar kvennadeildin var stækkuð og endurbætt 1975--1976 var gert ráð fyrir 2.200 fæðingum á ári í því húsnæði að meðaltali. Frá því 1987 hefur fjöldi fæðinga farið langt fram úr þessum áætlaða fjölda og voru á sl. ári 2.913 eða 32% fleiri en deildinni er ætlað að annast. Á þessu ári má búast við að fæðingum fjölgi enn miðað við áætlun fyrir fyrsta helming þessa árs.
    Þegar kvennadeildin tók við starfsemi Fæðingarheimilisins fluttust 7 stöður ljósmæðra yfir á kvennadeild. Engin önnur viðbót fékkst. Í annarri mönnun deildarinnar hefur ekki fjölgað þrátt fyrir aukið álag. Samkvæmt erlendum stöðlum hefði þurft að fjölga læknum um 1--2 við þessar breytingar. Ég tel rétt að benda á að á undanförnum árum hafa 4 læknar hætt störfum á deildinni án þess að til nýráðninga hafi komið nema tímabundið.
    Nú er svo komið að þjónusta við sjúklinga er komin að öryggismörkum og jafnvel niður fyrir þau. Álag á starfsfólk er svo mikið að það annar iðulega ekki lágmarksvinnu sem fullnægja á nútímakröfum. Dæmi eru um það að konur komnar fast að fæðingu verði að bíða utan fæðingarstofu nánast í biðröð til að komast að. Konur sem átt hefur að framkalla fæðingu hjá hafa verið sendar heim því það er ekki pláss eða starfsfólk til að sinna fleiri á þeirri stundu. Húsnæði kvennadeildar er orðið allt of þröngt. Sængurkonur liggja nánast út um allt á álagstímum og svo þétt að það verður ekki við unað.
    Fæðing barns er einstök tímamót í lífi hverrar fjölskyldu og það er mikilvægt að náið samband myndist strax milli allra í fjölskyldunni, bæði foreldra og systkina. Þau þrengsli sem deildin býr við í dag og sá umgangur óviðkomandi aðila sem fæðandi konur og þeirra nánustu mega þola er ekki samboðið þeirri virðingu sem bera á fyrir einkalífi fólks. Slíkt virðingarleysi sem ég nefni hér að framan á ekki aðeins við um fæðandi konur heldur einnig um aðra sjúklinga deildarinnar, enda er í allt of mörgum tilvikum því miður um afar viðkvæmt ástand að ræða, svo sem krabbameinssjúkar konur og konur sem koma vegna beiðni um fóstureyðingu og ekki má gleyma aðstandendum á viðkvæmum stundum. Hér er því úrbóta þörf á öllum sviðum þjónustu kvennadeildar.
    Sú ákvörðun að loka Fæðingarheimilinu vegna sparnaðar hlýtur að vera umdeild og ég vísa til umræðna um það mál, m.a. á síðasta þingi. Þrátt fyrir fullan vilja frábærs starfsfólk kvennadeildar að mæta óskum kvenna sem búist er við að fæði eðlilega og sem heldur vilja fæða og liggja með börn sín í öðru umhverfi en spítalaumhverfi, þá hefur slíkt ekki tekist vegna þrengsla og manneklu. Reynslan hefur sýnt að þörf fyrir slíka þjónustu er þó næg, enda hafa konur í Reykjavíkursvæðinu í ríkari mæli leitað t.d. til Sjúkrahúss Keflavíkur sem býður svipaða þjónustu og Fæðingarheimilið áður. Ég tel að það megi ekki búast við fækkun fæðinga á næstu árum og það sem betur fer. Íslendingar munu ekki í náinni framtíð fylgja fordæmi nágrannaþjóðanna og binda meðalstærð fjölskyldu við 1--2 börn. Það er því nauðsynlegt að hyggja að því hvernig við ætlum að búa að fæðandi konum og fjölskyldum þeirra í framtíðinni. Ég vil því spyrja hæstv. heilbrrh.:
    1. Er til stefna um fæðingarþjónustu og aðbúnað fæðandi kvenna í landinu og ef svo er, tekur slík stefna bæði til lengri og styttri tíma?
    2. Hvaða ráðstafanir hafa verið gerðar til að mæta nærri 300 væntanlegum fæðingum á kvennadeild Landspítalans nú í maí?
    Ástandið sem ríkt hefur undanfarið á kvennadeildinni getur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér. Því verður að taka í taumana strax og gera þær úrbætur sem nægja. Hvert eitt tilfelli þar sem barn skaddast í fæðingu hefur ekki einungis ómæld tilfinningaleg og félagsleg áhrif á fjölskyldu barnsins. Slíkar afleiðingar hafa í för með sér gífurlegan kostnað fyrir þjóðfélagið allt. Ætla mætti að eitt slíkt tilfelli gæti kostað þjóðfélagið jafnmikið í framtíðinni og nauðsynlegar úrbætur í mannafla og húsnæðismálum kosta nú. Við höfum ekki efni á að brenna okkur á því að spara með samtímasjónarmið í huga.