Kvennadeild Landspítalans

136. fundur
Mánudaginn 22. mars 1993, kl. 15:58:06 (6345)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Barnsfæðingar eru að sjálfsögðu ekki vandamál en það er vandamál hjá stofnun eins og fæðingardeild Landspítalans þegar fleiri óska þess að fá að fæða þar en stofnunin með góðu móti getur sinnt. Það er vandamálið, virðulegi forseti. Það er ástæðulaust að vera að snúa út úr því.
    Það er heldur ekki spurning um húsnæði. Það er spurning um fjármuni til rekstrar. Það er einfaldlega staðreynd að við erum með yfrið nóg húsnæði í sjúkrahúsakerfinu í Reykjavík en okkur vantar svo fé til þess að reka það að að meðaltali eru 100 rúm í sjúkrahúsunum í Reykjavík ekki nýtt vegna rekstrarfjárskorts. Þess vegna er vandamálið ekki það að húsnæði sé ekki til staðar, heldur hitt að þjóðarbúið hefur ekki lengur peninga til þess að reka það húsnæði sem þegar hefur verið byggt og er fyrir hendi. Dæmin um það eru miklu fleiri en þarna. Dæmin um það eru t.d. bygging nýs hjúkrunarheimilis fyrir aldraða í Grafarvogi. Dæmin eru t.d. bygging nýs sambýlis fyrir heilaskaðaða á Reykjalundi. Þar er húsnæði til staðar, en það vantar getu til þess að kosta þann rekstur sem þar á að fara fram.
    Árið 1991 var grunnur Landspítalans í fjárveitingum gerður upp og endurbyggður frá grunni, allur rekstur Landspítalans skoðaður og þáv. fjárveitinganefnd beitti sér fyrir því að stóraukið var framlag til spítalans þannig að fjárlagagrunnurinn var gerður réttur. Það var efast um, m.a. af hálfu forráðamanna spítalans, að það hefði síðan árið 1990 verið staðið við fjárveitingar samkvæmt þeim grunni. Þess vegna skipaði ég nefnd með aðild Ríkisendurskoðunar og stjórnenda spítalans til að fara ofan í þá sauma. Niðurstaða nefndarinnar varð sú að miðað við þann grunn sem lagður var með myndarlegum hætti af fjárveitingum til spítalans árið 1990 hafi að fullu leyti á árunum síðan, 1991--1992 og nú 1993, verið veitt fé til spítalans í samræmi við þann grunn sem þar var lagður fyrir rekstur hans. Það er ekki rétt að Landspítalinn

hafi verið eitthvert olnbogabarn í fjárveitingum ríkisins.