Meðferðarheimilið á Staðarfelli

137. fundur
Þriðjudaginn 23. mars 1993, kl. 13:36:53 (6348)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Eins og fram kom hjá hv. fyrirspyrjanda var gert ráð fyrir allmikilli lækkun á fjárveitingum til SÁÁ þegar fjárlagafrv. var lagt fram. Í viðtölum við forráðamenn SÁÁ í kjölfar framlagningar fjárlagafrv. kom fram að þeir töldu óhjákvæmilegt að loka heimilinu á Staðarfelli ef staðið yrði við áform frv. Í framhaldi af því átti ég síðan viðræður við forustumenn SÁÁ og 8. des. 1992 náðist fullt samkomulag á milli heilbr.- og trmrh. annars vegar og forráðamanna SÁÁ hins vegar um fjárlagamál og samkomulagið hljóðaði svo, með leyfi forseta:
    ,,Heilbr.- og trmrh. og forsvarsmenn SÁÁ hafa náð samkomulagi sín á milli um eftirtaldar afgreiðslur:
    1. Ágreiningsmál vegna reksturs sjúkrastofnana SÁÁ á árunum 1990 og 1991 verði leyst í samræmi við minnisblað dags. 5. nóv. 1992, 1. tölul., uppgjör á fjárhagsstöðu SÁÁ. Aðilar eru sammála um að hefja þegar vinnu við að ljúka uppgjöri eins og þar er sagt.
    2. Aðilar eru sammála um að skipa nú þegar nefnd sem skipuð verði fulltrúum heilbr.- og trmrh. annars vegar og SÁÁ hins vegar. Viðfangsefni þessarar nefndar verði að undirbúa á árinu 1993 samning milli heilbrrn. og SÁÁ um þjónustu þá sem ríkissjóður kaupir af SÁÁ vegna meðferðar áfengissjúkra . . .  
    3. Í frv. til fjárlaga fyrir árið 1993 er gert ráð fyrir að fjárveitingar til SÁÁ lækki um 35 millj. kr. frá framreiknuðum útgjaldagrunni 1992. Heilbr. og trmrh. mun beita sér fyrir því að fjárveitingar til SÁÁ í fjárlögum árins 1993 verði hækkaðar um 15 millj. kr. frá því sem í fjárlagafrv. segir þannig að í stað 35 millj. kr. lækkunar frá framreiknuðum útgjaldagrunni 1992 verði um að ræða 20 millj. kr. lækkun.
    Fulltrúar SÁÁ samþykkja að starfrækja sjúkrastofnanir SÁÁ á árinu 1993 miðað við slíka afgreiðslu mála og munu taka að sér að leita leiða til að hagræða og spara í rekstri stofnunarinnar sem þessu nemur. Hugsanlega verður um einhvern samdrátt að ræða í starfseminni verði ekki annars kostur.``
    Ég tel að samkomulagið sé alveg ótvírætt hvað varðar þær skyldur sem hvor aðili um sig tók á sig. Ég vil aðeins láta það koma fram, virðulegi forseti, að ríkisvaldið, þ.e. heilbr.- og trmrh. og Alþingi við afgreiðslu fjárlaga, fullnægði öllum þeim skilmálum sem hið opinbera hafði tekið á sig. Ég geri að sjálfsögðu ráð fyrir því að gagnaðili samningsins geri slíkt hið sama.