Staða sjávarútvegsins

137. fundur
Þriðjudaginn 23. mars 1993, kl. 13:48:02 (6356)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Hæstv. forseti. Það er misskilningur sem kom fram hjá hv. þm. að ég hefði kynnt einhverjar sérstakar tillögur í viðtalinu enda var ekki um það að ræða og textinn, sem hv. þm. las upp, bar það ekki með sér. Ég var að svara fyrirspurn fréttamanns um stöðuna í sjávarútvegi þar sem hafði verið framreiknað í tölum vegna lækkandi afurðaverðs. Ég var að skýra frá því að við töldum nauðsynlegt að þeir aðilar sem um það mál fjalla, til að mynda Þjóðhagsstofnun, skoðaði ekki eingöngu einfaldan framreikning í þessu dæmi heldur tæki aðra mikilvæga þætti inn í myndina. Vextir hafa farið lækkandi og munu fara enn lækkandi nú á næstu vikum og það er afskaplega mikilvægt innlegg í stöðuna, t.d. gagnvart sjávarútvegi.
    Það er líka ljóst að menn eru að færa til útflutning sinn þangað sem markaðurinn er hæfastur hverju sinni og sjávarútvegurinn hefur verið virkari í slíku á undanförnum árum. Auðvitað getur það haft áhrif á birgðasöfnun. Ég var að nefna það í þessu sambandi vegna þess að nú þegar kjarasamningar eða umræður um þá eru á viðkvæmu stigi er ljóst að af hálfu Vinnuveitendasambandsins eru miklar áhyggjur uppi vegna talna sem hafa verið birtar í stöðu sjávarútvegs og þess vegna er nauðsynlegt að fá nýjar tölur, nýjar upplýsingar þar sem allir þessir þættir liggja ljósir fyrir.