Markmið í atvinnumálum

137. fundur
Þriðjudaginn 23. mars 1993, kl. 13:58:08 (6365)


     Guðmundur Stefánsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. forsrh. fyrir svörin, en ég verð að segja að ég er ekki ánægður með þau. Ég held að þjóðin öll geri sér grein fyrir því, og ég vildi óska þess að ríkisstjórnin gerði það líka, að ríkisstjórnin verður að taka ákveðið frumkvæði í þessum málum. Vandamálin eru orðin slík að það er orðið aðkallandi að þau séu leyst og ekki dugir að bíða og bíða. Í þeim tillögum, sem lagðar voru fram af fyrrgreindum aðilum, er fjöldi atriða. Auðvitað má nefna þær almennu efnahagsforsendur, svo sem vaxtamál, gengismál, verðlagsmál og annað þess háttar, en það eru líka atriði sem snúa beint að atvinnuvegunum. Þar er rætt um ýmis atriði, svo sem raforkumál, verðlag á raforku. Þar er rætt um álögur á ferðaþjónustu, viðhald opinberra bygginga, rannsóknir og þróun og margt fleira.
    Ég minni á að með þjóðarsáttarsamningunum svokölluðu, sem gerðir voru, sýndi ríkisvaldið það frumkvæði sem þurfti og í kjölfarið byggði atvinnulífið á því samkomulagi um margra ára bil. Ég held að ríkisstjórnin ætti að taka sér þetta til fyrirmyndar og ráðast á vandann en ekki ætla bara að leysa hann með biðinni einni.