Seðlabanki Íslands

137. fundur
Þriðjudaginn 23. mars 1993, kl. 14:46:58 (6368)

     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég kýs að skilja orð hæstv. viðskrh. hér áðan á þann veg að hann sé reiðubúinn að ræða þá tillögu sem ég var að kynna og Már Guðmundsson flutti í nefndinni á sínum tíma, að það yrði bara einn bankastjóri við Seðlabanka Íslands. Mér fannst vera athygisvert að ráðherrann lokaði ekki á þann möguleika í ræðu sinni nú. Það finnt mér vera grundvöllur til þess að taka upp umræður um að breyta frv. í samræmi við þann veruleika.
    Hins vegar vil ég segja við ráðherrann að það skiptir líka máli hvaða einstaklingur skipar stöðuna. Ég veit að hæstv. ráðherra þekkir það vel til í veröldinni að hann veit að seðlabankastjórar verða umfram allt að eiga ákveðinn trúnað, ákveðin heilindi, eða það sem á enskri tungu er stundum kallað í þeirri alþjóðlegu umræðu ,,integrity`` og verður kannski einna best þýtt með orðinu heilindi á íslensku. Það er einfaldlega vegna þess að starf þeirra er með þeim hætti að það er ekki bara skipulagið og verkin sem tala heldur sá trúnaður sem menn bera til þess einstaklings sem gegnir stöðunni. Ég held t.d. að það hefði skipt miklu máli í Bandaríkjunum að menn báru trúnað til þess manns sem þar var seðlabankastjóri á árum áður og einnig að menn bera trúnað til þess manns sem gegnir þeirri stöðu nú. Ég held líka að ein af ástæðunum fyrir því að Jóhannes Nordal hefur getað gegnt embætti seðlabankastjóra á Íslandi svo lengi sem hann hefur gert, þótt við höfum ýmsir verið óánægðir með sumt af stefnumálum hans og verkum, er að hann hefur haft til að bera þau heilindi sem ég var að tala um hér áðan. Þess vegna skiptir það miklu máli, hæstv. ráðherra, ekki bara hvert stjórnskipulagið er heldur einnig hvaða einstaklingur velst til að gegna stöðu seðlabankastjóra.